Nóttin verður löng

Greinar

Bandaríkjamenn hafa líklega endurkjörið Bush sem forseta, veitt honum meirihluta í báðum deildum þingsins og gefið honum tækifæri til að pakka íhaldsmönnum í hæstarétt, sem mun hafa áhrif áratugi fram í tímann. Allt þetta mun fela í sér, að stjórnarhættir forsetans verða enn harðari en áður.

Öllu mannkyni eru þetta skelfileg tíðindi, þótt kannanir hafi lengi sagt hið sama. Einkum er vont fyrir samstöðu Vesturlanda, að meirihluti Bandaríkjamanna skuli styðja róttæka stefnu, sem annars staðar á Vesturlöndum er talin langt utan við heilbrigða skynsemi og pólitískt litróf.

Bandaríkjamenn hafa ekki áhyggjur af fjöldamorðum hersins í Írak, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa verið myrtir, einkum í loftárásum, þar sem þúsund börn eru drepin á degi hverjum. Þeir hafa lengi litið á útlendinga sem hunda og á íbúa þriðja heimsins sem réttmæt skotmörk í loftárásum.

Bandaríkjamenn hafa ekki áhyggjur af rökréttu samhengi. Þeir trúa, að Saddam Hussein og Írak hafi verið í tengslum við Osama bin Laden og Al Kaída og beri ábyrgð á 11. september hryðjuverkunum. Þeir hlusta ekki á neinar staðreyndir, sem allar segja, að þeir hafi Írak alveg fyrir rangri sök.

Bandaríkjamenn eru hryðjuverkamenn heimsins. Allir aðrir hryðjuverkamenn komast samanlagt ekki þangað sem Bandaríkin hafa hælana. Við munum áfram búa við heimsveldi, sem lítur á sinn vilja sem lög heimsins og er óhrætt við að kvelja og drepa fólk, sem óvart verður í vegi fyrir hernaði þeirra.

Bandaríkjamenn hafa í nokkur ár ekki viljað hlusta á Evrópu og gera það enn síður næstu fjögur árin. Þeir telja, að Bush njóti sérstakrar náðar Guðs og taki við fyrirmælum frá honum. Þeir eru sáttir við trúarofstæki og krossferðir, enda líta þeir sömu augum á múslima og Hitler leit á gyðinga.

Bandaríkjamenn hafa engar áhyggjur af versnandi ástandi lífríkis jarðar. Þeir munu ekki taka þátt í samstarfi alls heimsins um viðnám gegn auknum koltvísýringi, heldur halda áfram að velta sér upp úr skítnum með þá hugsjón á oddinum, að Bandaríkin hafi ekki efni á að hreinsa upp eftir sig.

Sum ríki munu áfram reyna að nudda sér utan í Bandaríkin eins og hundar nudda sér utan í húsbónda sín. Þar á meðal verða Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson. Víðast annars staðar mun almenningsálitið koma í veg fyrir, að ráðamenn geti gengið í lið með stríðsóðri þjóð í einstefnuakstri.

Bandaríkin hafa tekið við hlutverki Sovétríkjanna sem hið illa afl heimsins. Úrslitin í Bandaríkjunum voru skelfileg. Við þurfum nú að búa okkur undir, að nóttin verður löng.

Jónas Kristjánsson

DV