Nóttin verður löng í Serbíu

Greinar

Slobodan Milosevic er ekki stóra vandamálið í arfaríkjum Júgóslavíu á Balkanskaga. Engan vanda leysir að leggja fimm milljónir dollara til höfuðs honum. Hann er að vísu með afbrigðum kaldrifjaður, en ýmsir aðrir helztu stjórnmálamenn Serba eru enn verri.

Við vitum af langri og biturri reynslu, hvar við höfum Milosevic. Slægð hans er orðin öllum opin bók, jafnvel ráðamönnum Vesturveldanna, sem árum saman ímynduðu sig vera að semja við hann um hitt og þetta. Menn vita, að hann mundi roðna, ef hann segði satt.

Stjórnarandstæðingurinn Vuk Draskovic er raunar enn þjóðernissinnaðri en Milosevic, ákaflega tækifærissinnaður, ýmist innan eða utan stjórnar, síður en svo traustvekjandi. Zoran Djindjic er talinn í húsum hæfur á Vesturlöndum, en nýtur sáralítils fylgis í Serbíu.

Sjálfur hefur Milosevic um 20% fylgi í Serbíu, sama fylgi og fyrir stríðið í Kosovo. Uppþot víða um landið sýna, að margir landa hans eru honum reiðir, en það er ekki fyrir brjálaða framgöngu manna hans í Kosovo, heldur fyrir að láta herinn leggja á flótta.

Í stríðslok var vígamáttur Serbahers nánast óskertur. Sem dæmi má nefna, að einungis þrettán skriðdrekar höfðu verið eyðilagðir í loftárásum Vesturveldanna. Mannfall var sáralítið í hernum fram á allra síðustu daga. Hann hefði vel getað varizt lengi enn.

Rússar fengu Milosevic til að gefast upp með því að segja honum, að hann væri með framgöngu sinni búinn að koma sér úr húsi hjá þeim og ætti þaðan engrar hjálpar að vænta. Serbía stóð ein í heiminum, með stuðningi nokkurra rómantískra sagnfræðinga á Íslandi.

Serbar sjálfir eru vandamál Balkanskaga. Þeir hafa komið sér upp sagnfræði, sem réttlætir allar gerðir þeirra. Þeir styðja til valda ofstækis- og ofbeldismenn og eru upp til hópa sannfærðir um, að fólkið í Kosovo hafi flúið undan loftárásum Atlantshafsbandalagsins.

Hættulegt er að gæla við hugmyndir um valdarán í Serbíu að undirlagi Vesturveldanna. Jarðvegurinn í landinu er með þeim hætti, að upp úr honum rísa nánast eingöngu óbótamenn í stjórnmálum. Þegar Milosevic fer, er líklegt, að eftirmaðurinn verði engu skárri.

Óráðlegt er að hafa önnur afskipti af innanríkismálum Serba en að koma í veg fyrir, að ofbeldishneigð þeirra komi niður á Ungverjum á sjálfstjórnarsvæðinu Vojvodina og Svartfellingum. Enn þarf að verja nánasta umhverfi þjóðarinnar fyrir Íslandsvininum Arkan.

Ekki er síður óráðlegt að fara að ráðum Martti Ahtisaari Finnlandsforseta og styrkja endurreisn innviða og atvinnulífs landsins. Engin ástæða er til að byrja á neinu slíku fyrr en Serbar hafa sem þjóð horfzt í augu við glæpina, sem framdir hafa verið í nafni þeirra.

Vesturveldin hafa nóg að gera og borga við að byggja upp innviði og atvinnulíf þeirra svæða, sem Serbar hafa rústað í Bosníu og Kosovo, svo og til að treysta lýðræði í löndunum í kring, Makedóníu, Albaníu, Búlgaríu og Ungverjalandi, sem studdu stríð Vesturveldanna.

Óformlegt bandalag ríkja Balkanskaga gegn Serbíu hefur gefið Vesturveldunum góðan jarðveg til að efla samstarf við þau og stuðla að varanlegu lýðræði og efnahagsframförum á skaganum, á svipaðan hátt og gerðist í Mið-Evrópu eftir andlát Varsjárbandalagsins.

En að sinni er enginn jarðvegur fyrir vestrið í Serbíu, þar sem lærðir og leikir ásaka Milosevic fyrir það eitt að hafa tapað Kosovo í hendur villutrúarmanna.

Jónas Kristjánsson

DV