Nú er loksins nóg komið

Greinar

Umræðan um embættisfærslur fyrrverandi bæjarstjóra og núverandi félagsráðherra mun koma að nokkru gagni, þótt hún leiði ekki snarlega til marktækra umbóta í meðferð ráðherravalds. Hún mun til dæmis stuðla að slæmri útkomu Alþýðuflokksins í kosningunum í vor.

Þetta er eðlileg afleiðing af því, að leifar Alþýðuflokksins hafa að mestu leyti fylkt sér um ráðherrann og hafnað umræðunni sem marklausri árás. Því til staðfestingar hefur flokkurinn vísað málinu til Ríkisendurskoðunar, sem tæpast getur fjallað um siðamál af þessu tagi.

Í vörnum fyrir ráðherrann hefur verið lögð áherzla á, að embættisfærslurnar hafi ekki verið ólöglegar, þótt aðilar úti í bæ telji þær ósiðlegar. Þetta er gamalkunnug vörn, sem byggist á, að of lítið er um, að lög og reglur hefti valdbeitingu af hálfu bæjarstjóra og ráðherra.

Í vörnunum hefur líka verið lögð áherzla á, að margumræddur stjórnmálamaður sé alls ekki einn um að hafa beitt bæjarstjóra- og ráðherravaldi á umdeildan hátt. Þetta er líka gamalkunnug vörn, sem felst í raun og veru í að segja: Hinir eru ekkert betri en ég.

Í þriðja lagi hefur í vörnunum verið lögð áherzla á að telja annarlegar hvatir vera að baki gagnrýninnar, einkum þá, að hún sé upprunnin hjá flokksbróður ráðherrans, heilbrigðisráðherra, sem sé að berjast við félagsráðherra um næstu formennsku í Alþýðuflokknum.

Samsæriskenningin hefur nokkurn hljómgrunn, af því að hefðbundið er í þjóðmálunum, að menn geti litið fram hjá innihaldi þess, sem sagt er, og einbeitt sér í staðinn að spurningum á borð við: Hver sagði það, hvers vegna sagði hann það og hver stendur á bak við það?

Þeir, sem að staðaldri skrifa um íslenzk stjórnmál, komast ekki hjá því að taka eftir, hversu sjaldan menn bregðast við efnisatriðum gagnrýni og hversu oft þeir einbeita sér að því að finna, hvaða hvatir séu líklega að baki gagnrýninni og hver sé höfundur að samsærinu.

Þannig er reistur þrefaldur múr umhverfis fyrrverandi bæjarstjóra og núverandi félagsráðherra. Hann er sagður ekki hafa gert neitt, sem sé beinlínis ólöglegt; hann er sagður ekkert verri en hinir; og hann er sagður vera fórnardýr samsæris að undirlagi keppinautar.

Þetta fellur í kram margra, enda hafa ekki myndazt hér á landi neinar siðgæðishefðir, sem líkjast þeim, er ráða ferðinni hjá nágrönnum okkar í engilsaxneskum löndum og á Norðurlöndum. Stjórnmálamenn setja ekki lög um siði sína, en bylta sér um á gráum svæðum.

Sjálfsöryggi ráðamanna á þessu sviði sést af, að fjármálaráðherra hyggst skera niður hálfa daga í greiðslum til minni háttar embættismanna, sem koma frá útlöndum á miðjum degi, en heldur óbreyttum ferðahvetjandi greiðslum til ráðherra umfram ferðakostnað þeirra.

Munurinn á félagsráðherra og öðrum valdamönnum er líklega mestur sá, að þeir fara með löndum og reyna að dylja vafasamar embættisfærslur sínar til að minnka líkur á umfjöllun, en bæjarstjórinn og félagsráðherrann stökk hins vegar ótrauður og áberandi út í fenið.

Hingað til hefur umræða um spilltar embættisfærslur ekki leitt til mælanlegra áhrifa á fylgi stjórnmálaflokka eða -manna. Kjósendur hafa ekki talið, að vandamálið keyrði svo úr hófi fram. En ýmislegt bendir til, að þetta sé að breytast og spilling fari senn að hefna sín.

Meðal annars mun fólk verða þyngra viðskiptis í næstu kjarasamningum og kjósendur munu verða Alþýðuflokknum næsta erfiðir í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV