Hafrannsóknastofnunin liggur vel við höggi þessa dagana. Þótt árum saman hafi verið farið að tillögum hennar um aflamagn, hafa fiskistofnar haldið áfram að minnka. Menn draga því fræðimennsku hennar í efa. Gamlir og nýir skottulæknar eru aftur komnir á kreik.
Vandi Hafrannsóknastofnunar er ekki aðeins ótraust viðfangsefni hennar, sem er lifandi fiskur í sjó, heldur líka alls konar aukabyrðar, sem lagðar hafa verið á aflatillögur hennar, svo sem ábyrgð á ranglátu skömmtunarkerfi og hlut þess að verndun fiskistofnanna.
Síbreytilegar aðstæður í náttúrunni valda sveiflum, sem oft fara langt út fyrir spár Hafrannsóknastofnunar. Oftast reynist ástandið verra en gert hafði verið ráð fyrir, sem getur bent til, að stofnunin hneigist til að smitast af takmarkalausri bjartsýni flestra hagsmunaaðila.
Í vörnum stjórnmálamanna og hagsmunaaðila fyrir ranglátu gjafakvótakerfi hefur því kerfi vísvitandi verið ruglað saman við árlegar aflamagnstillögur Hafrannsóknastofnunar. Þessir aðilar hafa sagt, að viðhalda þurfi kvótakerfinu, af því að það verndi fiskistofna.
Ekkert samhengi er milli leyfilegs heildarafla annars vegar og aðferða við skiptingu aflans. Hins vegar hefur hentað stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum að draga Hafrannsóknastofnun inn í gjafakvótann. Það hefur um leið skert traust fólks á henni og skaðar hana nú.
Stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar hafa dregið upp mynd af nánast fullkomnu kerfi, þar sem reiknilíkön vísindamanna ákveði heildarafla, sem skiptist milli aðila með veiðireynslu og leiði til trausts viðhalds fiskistofna umhverfis landið, er sé öfundarefni annarra þjóða.
Utanríkisráðherra hefur verið duglegastur við að koma þeirri firru á framfæri, að íslenzka fiskveiðistjórnarkerfið í heild og þar með talinn gjafakvótinn, sé sífellt aðdáunarefni, hvar sem hann fari um heiminn og muni innan skamms verða eins konar útflutningsafurð.
Þetta er þvæla, sem dugar ráðherranum ekki lengi. Allar tölur sýna, að veiðar Íslendinga eru langt frá því að vera sjálfbærar. Nánast allir fiskistofnar hafa verið ofveiddir, sumir um langan aldur, aðrir í nokkur ár. Heildarmyndin er hægfara hnignun lífríkisins.
Ef menn hefðu borið gæfu til að halda reiknilíkönum Hafrannsóknastofnunar utan við óskylda hagsmunagæzlu á borð við gjafakvótann, nyti stofnunin meira trausts og væri betur í stakk búin til að mæta gagnrýni skottulækna, sem nú hafa leikvöll umræðna að mestu fyrir sig.
Mest fer að venju fyrir þeim, sem segja, að ekki eigi að skammta aflamagn, heldur leyfa öllum að veiða að vild, svo að stofnar grisjist eðlilega og leiði af sér færri og stærri fiska. Þessi aðferð er mest notuð um allan heim og hefur alls staðar leitt til hruns og hörmunga.
Að auki ber í fyrsta skipti töluvert á annarri og lúmskri kenningu um, að taka beri aukið tillit til svokallaðra fiskifræða sjómannsins, sem er fínt hugtak ímyndunarfræðinga yfir það, sem áður voru kallaðir fordómar skammsýnna hagsmunaaðila og eru alls ekkert annað.
Því miður hefur hinn nýi og sennilega fremur ístöðulitli sjávarútvegsráðherra látið fallerast fyrir hinu nýja hugtaki. Það bendir til, að hann muni heimila nokkru meira aflamagn en Hafrannsóknastofnunin mælir með og þar með enn draga úr fiskistofnunum.
Það mun reynast honum auðvelt, því að traustið á Hafrannsóknastofnun hafði áður verið rýrt með því að draga hana að ósekju inn í rifrildið um gjafakvótann.
Jónas Kristjánsson
DV