Nú þarf vel að grisja.

Greinar

Vestfirzkir sérfræðingar í smáfiskadrápi hafa lagt til, að ekki verði á næsta ári veitt miklu meira en 400 þúsund tonn af þorski. Þetta óráðshjal var sett fram á þingi farmanna og fiskimanna fyrir helgina.

Einnig fyrir helgina reyndu fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar að kasta rýrð á fiskifræðinga okkar. Var þó ferill þessara ráðherra slíkur, að þeir ættu sem minnst að opna munninn, þegar sjávarútveg ber á góma.

Sömu dagana sögðu raunsæir útgerðarmenn á sínu þingi, að tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um 200 þúsund tonna afla á næsta ári væru því miður nálægt raunveruleikanum. Raunar yrði varla hægt að skrapa miklu meira.

Tímabært er orðið, að menn hætti að skeyta stirðu skapi á fiskifræðingum og taki heldur til óspilltra málanna við að reyna að mæta hruni flestra mikilvægustu stofna nytjafiska við landið, – áður síldar og nú þorsks og loðnu.

Forsenda gagnaðgerða er, að menn lyfti höfði upp úr sandinum og opni augun, svo að þeir sjái, að ástandið er vissulega hrikalega alvarlegt, hvað sem ráðherrarnir Matthías Bjarnason og Steingrímur Hermannsson segja.

Brýnasta verkefnið er að minnka sóknina og laga hana að stærð fiskistofnanna. Það er virkasta aðferðin við að minnka tilkostnaðinn niður að samræmi við aflamagn, svo að fiskveiðar verði arðbærar á nýjan leik.

Stöðva þarf útgerð skipanna, sem grínistar hafa á undanförnum árum látið ríkið gefa sér. Fiskveiðasjóður á að viðurkenna, að lánsféð er að mestu glatað. Hann á að taka þessi gjaldþrota skip upp í skuldir.

Um leið þarf að tryggja, að skipunum verði raunverulega lagt eða öðrum skipum í þeirra stað. Ekki er nóg að skipta um útgerðaraðila, heldur þarf að taka skip úr samkeppni um hinn litla afla, sem verður á næstu árum.

Jafnframt þarf ríkið að verja nokkrum fjármunum til að hjálpa útgerðarmönnum við að leggja úreltum skipum, sem helzt virðast gerð út, af því að á þeim hvíla skuldir. Þetta mundi hjálpa til við að grisja hinn of stóra flota.

Í þriðja lagi er hugsanlegt, að losna megi við sum skip með því að selja þau úr landi. Styðja þarf við bakið á sölumennsku á því sviði með vinsamlegri meðhöndlun skulda. Það munar um hvert skip, sem fer úr samkeppninni.

Að svo miklu leyti sem þessar aðgerðir duga ekki til að laga sóknina að aflanum þarf að auka kerfi skrapdaga eða koma á kvótum, þótt hvorugt sé fýsilegt. Slíkar leiðir eru verri en grisjun, en geta samt verið nauðsynlegar.

Munurinn felst í, að minnkun flotans eykur arðsemi hans, en skömmtunarkerfið dregur hins vegar úr henni. En um leið vitum við, að skömmtunin verður ofaná, af því að pólitíska kerfið skortir kjark til nægilegrar grisjunar.

Til viðbótar við grisjun og skömmtun þurfa ráðamenn þjóðarinnar að gæta þess, að gengi krónunnar sé jafnan svo lágt skráð, að arðbær sé útgerð vel rekinna fiskiskipa, sem ekki eru upp fyrir haus í erlendum skuldum.

Sumri útgerð getur ekki einu sinni lágt gengi krónunnar bjargað. En slíkri útgerð getur ekkert bjargað. Við þurfum sem fyrst að losna við hana, svo að betra svigrúm verði um þann hluta útgerðar, sem bezt er settur. Á slíkri útgerð getum við byggt okkar framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV