Sigurvegari kosninganna í Bretlandi sagði það bitastæðast í kosningabaráttunni, að skipta þyrfti um stjórn í landinu og að menn skyldu treysta sér. Þetta minnti mjög á innantóma kosningabaráttu Clintons Bandaríkjaforseta, þegar hann var kosinn í fyrra skiptið.
Ekkert mun gerast í brezkum stjórnmálum við stjórnarskiptin. Tony Blair er miðjumaður eins og John Major, hefur litla skoðanaballest og reynir að sigla milli skerja eftir skammtímaaðstæðum hverju sinni. Hann er einn af þeim, sem verða valdamiklir, en áhrifalausir.
Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra á undan John Major, var af öðru sauðahúsi. Hún hafði ákveðnar skoðanir og fylgdi þeim fast eftir. Hún breytti velferðarþjóðfélaginu í átt til samræmis við getu þjóðarbúskaparins og háði frækilegt stríð um Falklandseyjar.
Vesturlönd verða aldrei söm eftir stjórn hennar. Alls staðar hefur velferðarþjóðfélagið verið endurskoðað og lagað að fjárhagslegum raunveruleika, meira að segja í höfuðríkinu, Svíþjóð. Þetta hefur styrkt stöðu Vesturlanda heima fyrir og á alþjóðavettvangi.
Eftir Falklandsstríðið var um tíma tekið mark á hótunum Vesturlanda gegn uppivöðslu glæpahneigðra valdamanna í þriðja heiminum. John Major á mikinn þátt í að endurvekja þá skoðun, að Vesturlönd standi ekki við hótanir. Frægasta dæmið um það er Bosníudeilan.
Hann hefur haldið afar illa á stöðu Bretlands í Evrópusambandinu. Í stað þess að reyna að taka forustu fyrir sambandinu, hefur hann látið hrekjast úr einni fýlunni í aðra og einangrað landið á evrópskum vettvangi, allt vegna ýmissa kúariðu-sjónarmiða heima fyrir.
Hann kúðraði líka Norður-Írlandsmálinu, þegar það var komið í farsælan farveg fjölþjóðlegrar nefndar, sem hann átti þátt í að skipa. Hann kippti skyndilega fótunum undan nefndinni og endurvakti fyrri óöld til að reyna að laga stöðu sína í skoðanakönnunum heima fyrir.
Skoðanalausir áhrifaleysingjar eins og Major og Clinton eru hættulegir umhverfinu, því að illt er að spá, til hvaða örþrifaráða þeir muni grípa til að hafa áhrif á úrslit skoðanakannana, sem eru hálmstrá þeirra í valdastóli. Stefna þeirra rambar frá degi til dags.
Gott er, að Major skuli vera búinn að vera. Þar með er ekki sagt, að eftirmaður hans verði skárri. Kosningabaráttan gefur þvert á móti tilefni til að ætla, að Tony Blair muni ekki stjórna til að hafa áhrif, heldur til að halda stöðunni frá degi til dags í skoðanakönnunum.
Vestræn sjónarmið eiga í vök að verjast í heiminum um þessar mundir, meðal annars gegn sjónarmiðum úr heimi Múhameðs og Konfúsíusar, sem eru öflugri en sjónarmið Lenins og Hitlers voru. Vesturlönd þurfa heilsteypta og framsýna leiðtoga til að treysta stöðuna.
Þegar fjölmennar þjóðir velja sér leiðtoga á borð við John Major og Tony Blair, en hafna leiðtogum á borð við Margaret Thatcher, eru þær að segja pass. Þær eru að segjast vilja fá að vera í friði fyrir óþægindum raunveruleikans. Þær vilja hlusta á róandi hjal.
Tony Blair er framleiddur í markaðs- og ímyndunarfyrirtækjum rétt eins og Bill Clinton. Hann er sléttmáll og blaðrar mikið, en segir ekki neitt bitastætt. Þetta kom greinilega fram í kosningabaráttuni. Verra er, að kjósendur virðast láta sér blekkinguna vel líka.
Ef Vesturlandabúar glata hæfni til að velja sér valdamenn, sem vilja ekki bara völd, heldur líka áhrif, er hætt við, að gengi Vesturlanda fari ört versnandi.
Jónas Kristjánsson
DV