Núllrekstur sjávarútvegs

Greinar

Núllrekstur hefur áratugum saman verið stefna íslenzkra stjórnvalda í sjávarútvegi. Þrír aðilar hafa tekið höndum saman um að framkvæma þessa stefnu, ríkisstjórnir, Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki. Með þessu hefur verið aflað fjár til annarra þarfa þjóðfélagsins.

Þjóðhagsstofnun hefur fengið reikninga fyrirtækja í sjávarútvegi og reiknað út, hversu langt frá núlli meðalreksturinn sé. Seðlabankinn hefur séð um að ofmeta gengi krónunnar, svo að gengið lækki ekki fyrr en sjávarútvegurinn er kominn nokkuð niður fyrir núllið.

Seðlabankinn er ekki sökudólgurinn í máli þessu, heldur þjóðin sjálf, sem vill komast yfir verðmætin, sem sjávarútvegurinn aflar. Hún stendur að baki þingflokkanna, er hafa komið á fót ríkisstjórnum af ýmsu tagi. Þessar ríkisstjórnir hafa allar viljað núllrekstur.

Þjóðfélagið í heild hefur blóðmjólkað sjávarútveginn til að fólk geti lifað góðu lífi í öðrum atvinnuvegum og til að þjóðin rekið umfangsmikið velferðarkerfi, sem einkum beinist að hefðbundnum landbúnaði og að frystingu byggðar í því ástandi, sem það er á hverjum tíma.

Það broslega í þessu er, að hagsmunagæzlumenn sjávarútvegsins hafa ekki gert bandalag við hagsmunagæzlumenn Reykjavíkursvæðisins um að létta af þessari blóðmjólkun, heldur hafa þeir gert bandalag við hagsmunagæzlumenn landbúnaðar og byggðastefnu.

Þrýstihópar sjávarsíðunnar hafa stutt þetta kerfi, af því að hún hefur fengið ruður af nægtaborði byggðastefnunnar. Hún hefur verið litli bróðir í sníkjubandalagi með þeim aðilum, sem hafa skipulega rænt hana afrakstrinum af mikilli framleiðni í sjávarútvegi.

Ráðamenn eru sammála um, að sjávarútvegur megi ekki lúta lögmálum markaðskerfis. Þeir eru sammála um, að hann eigi að koma út á núlli samkvæmt reikningum í Þjóðhagsstofnun og að gengi krónunnar megi ekki lækka fyrr en mínus er kominn í sjávarútveg.

Með skráningu á gengi krónunnar tekst þjóðinni að lifa um efni fram á kostnað sjávarútvegs. Stundum eru gerðar um þetta þjóðarsáttir, þar sem ríkið ábyrgist gagnvart forustumönnum launafólks og fyrirtækja, að verðlag hækki lítið og krónugengi lækki ekki.

Miðstýring sjávarútvegs hefur farið vaxandi. Veiðar eru reyrðar í viðja kvótakerfis og reynt er að hamla gegn þróun arðbærustu þáttanna með því að takmarka útflutning á ferskum fiski. Stofnanir og nefndir og ráð og ráðuneyti stjórna stóru sem smáu í sjávarútvegi.

Í stað núllrekstrar, gengisverndar og annarrar miðstýringar ætti að koma á fót markaðsbúskap og auðlindaskatti í sjávarútvegi. Á þann hátt fengi sjávarútvegurinn að njóta afraksturs af framleiðni sinni og þjóðfélagið gæti skattlagt auðlindina á takmarkaðan hátt.

Þjóðin er þessu andvíg, af því að hún vill halda áfram að lifa um efni fram í skjóli gengisskráningar og að ná tugum milljarða á hverju ári til að brenna á altari hefðbundins landbúnaðar og byggðastefnu. Um allt þetta er þjóðarsátt, sem sjávarútvegurinn haggar ekki.

Gengislækkunarhugmyndir eiga sérstaklega lítinn hljómgrunn um þessar mundir, af því að verðbólga er næstum horfin og komandi kjarasamningar snúast sennilega um varðveizlu lífskjara á óbreyttu verðstigi. Ytri aðstæður eru sjávarútvegi á þann hátt óhagstæðar.

Sjávarútvegur verður alltaf utangarðs dráttardýr í þjóðfélagi miðstýringar og þjóðarsátta, gengisverndar og núllrekstrar, landbúnaðar og byggðastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV