Nunnurnar í Landakoti hafa tekið af skarið og komizt að niðurstöðu, sem er þjóðinni hagkvæm. Þær hafa veitt sameiningarmáli Borgarspítala og Landakotsspítala í þann tiltölulega farsæla farveg, að alls ekki verður af hinni dýru og óhagkvæmu sameiningu að sinni.
Sjónarmið nunnanna í Landakoti munu reynast farsælli en handarbakavinnubrögð í ráðuneyti og nefndum og ráðum, er gerðu sameininguna að farsa, sem tók skyndilegum vendingum vikulega eða oftar, án þess að málsaðilar gætu útskýrt hinn meinta sparnað.
Þegar aðstoðarmaður ráðherra túlkaði kurteislegt neitunarbréf þeirra sem jáyrði, var mælir farsans orðinn fullur. Nunnurnar sögðu þá einfaldlega nei, svo ekki varð um villzt. Og stjórnvöld höfðu áður samþykkt, að þær mættu eiga síðasta orðið.
Nunnurnar hafa með beitingu neitunarvalds komið í veg fyrir, að ríkið fjárfesti um milljarð í sameiningu Borgarspítala og Landakots, og þar af tæplega hálfan milljarð á þessu þrengingarári ríkissjóðs. Neitunin linar fjárskortsþjáningar ríkisins og heilbrigðisgeira þess.
Að sinni verður niðurstaðan sú, að bráðaþjónusta leggst niður á Landakotsspítala og verður aðeins veitt á Landspítala og Borgarspítala. Hið dýra úthald bráðaþjónustunnar verður því á tveimur stöðum í stað þriggja. Af því mun hljótast nokkur sparnaður.
Jafnframt verður nýtt aðstaða og þekking, sem til er á Landakotsspítala á ýmsum sérsviðum, þannig að í stórum dráttum verður óbreyttur rekstur á spítalnum að öðru leyti en því, að bráðaþjónustan leggst niður. Hann verður spítali, sem tekur sjúklinga af biðlistum.
Eftirtektarverðast er í sameiningarfarsanum, hversu langt var hægt að komast gegnum kerfið með þá firru, að sameining upp á milljarð í kostnaði leiddi til sparnaðar, þótt ljóst megi vera, að vextirnir einir af milljarðinum nema tæpum hundrað milljón krónum á hverju ári.
Svo virðist sem farsinn hafi átt upptök sín í heilbrigðismálanefnd Sjálfstæðisflokksins, þar sem sameinaðir voru hagsmunir Borgarspítala af ríkisfjármögnun á stækkun hans, og hagsmunir smákónga af Landakotsspítala af að komast í öruggari haga í Fossvogi.
Hugmyndin fékk stuðning í ráðuneyti heilbrigðismála, sem á fleiri sviðum hefur reynzt styðja undarleg og annarleg sjónarmið, eins og kom fram í deilunni um náttúrulækningahælið í Hveragerði. Ráðuneytismenn göbbuðu ráðaherra sinn til að keyra málið áfram.
Heilbrigðisráðherra fór af sínum alkunna krafti og sínu alkunna offorsi í sameiningarmálið, þótt hann væri þar aðeins peð í tafli ráðuneytis og hagsmunaaðila úti í bæ. Fyrir bragðið lenti hann í spjótalögum víglínunnar og mæddist af sárum í almenningsálitinu.
Ekki tók betra við, þegar reikniglöggur maður, sem er aðstoðarmaður ráðherra, tók að sér að hvíla ráðaherrann í vonlausu stríði fyrir vonlausum málstað. Þá komst farsinn á það stig, að enginn vissi lengur, hver hafði umboð fyrir hvern og hver hafði samþykkt hvað.
Hvorki ráðherra né aðstoðarmaður hans hafa sjálfir neina innri sannfæringu eða trú á sameiningunni, sem þeir hafa haft svo mikið fyrir að reyna að knýja fram. Þeir eru nánast hinir nytsömu sakleysingjar í málatilbúnaði, sem stofnað var til í innanflokksnefnd úti í bæ.
Sem betur fer fékk farsinn farsælan enda eins og hjá Moliïere. Það var fyrst og fremst að þakka nunnunum, sem höfðu vit fyrir ráðamönnum og sérfræðingum.
Jónas Kristjánsson
DV