Frá Efra-Núpi í Núpsdal í Miðfirði að Norðlingafljóti í Borgarfirði.
Árið 1242 fór Kolbeinn ungi með 600 manna lið um Núpdælagötur til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hér er lýst slíkri vetrarleið milli Núpsdals og Úlfsvatns.
Förum frá Efra-Núpi fram dalinn með Núpsá að austanverðu, síðan heiðina í beinu framhaldi alla leið að Urðhæðarvatni. Norðan þess komum við á veiðislóð að sunnanverðu. Við fylgjum henni fyrst í austur að Urðarvatnsskála og síðan austur fyrir Úlfsvatn, í 460 metra hæð, og suður fyrir það. Þaðan liggur jeppaslóðin beint suður að Norðlingafljóti. Þar förum við yfir fljótið á vaði og komum þá á Þorvaldshálsi á veginn um Arnarvatnsheiði. Um miðja nítjándu öld var samkvæmt Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar farið vestur fyrir Úlfsvatn og síðan yfir Norðlingafljót nokkru neðar en núna. Þar heitir Núpdælavað á fljótinu, rétt ofan við Bjarnafoss. Lýsingu þess kafla má líka sjá í Árbók FÍ 1962 eftir Þorstein Þorsteinsson. Við komu veiðislóðarinnar hefur syðsti hluti Núpdælagatna þannig færzt austar.
38,8 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar
Skálar:
Úlfsvatn: N64 53.130 W20 34.958.
Nálægir ferlar: Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Steinheiði.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins