Nútími genginn í garð

Greinar

Borgarastríðið í Kákasus hefur linað spennuna á löndunum við Eystrasalt. Meðan Rauði herinn er upp tekinn við að reyna að ganga á milli Azera og Armena, er ekki líklegt, að foringjar hans vilji bæta við blóðbaði norður í Litháen, Eistlandi og Lettlandi.

Fyrir tuttugu öldum var rómverski herinn á ferð og flugi frá Egyptalandi til Skotlands og frá Portúgal til Rúmeníu. Þannig var heimsveldi haldið saman í þá daga. Nú er slíkt ekki lengur talið unnt og því er liðinn tími fjölþjóða-heimsveldis á borð við Sovétríkin.

Þegar ríki eru komin að ákveðnu menningarstigi í nútímanum, er ekki lengur kleift að beita ríkisher gegn almenningi. Innanlands er einungis unnt að nota her til björgunarstarfa eins og í Armeníu eftir jarðskjálftann og til að stilla til friðar eins og nú í Kákasus.

Austur-Evrópa er að mestu leyti komin á þetta vestræna menningarstig. Að minnsta kosti er ljóst, að ríkisher verður ekki beitt gegn borgurum í Ungverjalandi, Póllandi, Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu. Telja má þessi fjögur ríki vera varanlega komin vestur yfir.

Eina umtalsverða hættan er, að opnunarstefnu Gorbatsjovs, flokksformanns í Sovétríkjunum, verði hrundið með hallarbyltingu í Kreml og að við taki herskárri öfl. Þótt svo kunni að fara, verður óbærilegt fyrir nýja valdhafa að beita Rauða hernum gegn Austur-Evrópu.

Þjóðir og hermenn Austur-Evrópu munu standa saman gegn Rauða hernum, ef á þarf að halda. Ekki þarf mikinn herfræðing í Moskvu til að reikna, að herför mundi ekki svara kostnaði. Það verður á mörkunum, að harðlínumenn treysti sér í ofbeldi við Eystrasalt.

Sama er, hverjir verða við völd í Sovétríkjunum á næstu mánuðum og árum. Allir verða þeir uppteknir við að halda uppi “pax sovjetica” innan eigin landamæra. Hætt er við, að orkan fari að miklu leyti í að reyna að ganga á milli stríðandi fylkinga í Kákasus.

Margt hefur breytzt frá tímum Rómaveldis, þegar þjóðerni var ekki í tízku. Nú eru tunga og trú orðin að þvílíku afli, að annað verður undan að láta. Fleiri ríki en Sovétríkin eiga erfitt með að hemja þetta afl. Um allan heim krefst hvert tungumál síns sérstaka ríkis.

Meðan Rauði herinn er enn með lið í Austur-Evrópu er enn hætta á ferðum. En vinna herforingja í Austur-Evrópu beinist nú einkum að, hvernig mæta skuli hugsanlegri tilraun Rauða hersins til að koma leppum í stjórn á nýjan leik. Þetta vita foringjar Rauða hersins.

Ríkisstjórnir Austur-Evrópu hafa nú hver á fætur annarri krafizt brottfarar sovézka hernámsliðsins sem allra fyrst. Sumar vilja, að herinn verði allur farinn á brott fyrir árslok, en aðrar gefa færi fram á næsta ár. Og Kremlverjar munu smám saman verða að beygja sig.

Hinn skammi tími, sem ríkisstjórnir Austur-Evrópu gefa til stefnu, byggist auðvitað á, að þær vilja losna við Rauða herinn, áður en harðlínumenn gera hallarbyltingu í Kreml. Brottför einfaldar málið með því að draga úr síðari freistingum æðikolla í röðum harðlínumanna.

Hugmyndafræðilegir sigurvegarar sviptinganna í Austur-Evrópu og Sovétríkjanna eru markaðsbúskapur, þjóðernishyggja og mannréttindastefna. Þetta þrennt er komið á torstöðvaða sigurgöngu í Austur-Evrópu og farið að hafa veruleg áhrif í Sovétríkjunum sjálfum.

Þannig fer dýrð Rómavelda nútímans, að menntaðir ráðamenn þora ekki lengur að aka skriðdrekum yfir fólk. Þá er vestrænn nútími loksins genginn í garð.

Jónas Kristjánsson

DV