Ný kosningalög í vetur

Greinar

Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, hafa sameinazt um að óska eftir, að strax í vetur verði kosningalögum breytt í því skyni að afnema alveg eða því sem næst það mikla misvægi, sem nú er á atkvæðisrétti fólks eftir búsetu þess í landinu.

Athyglisvert er, að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka standa að þessari yfirlýsingu, þar á meðal Framsóknarflokksins, sem löngum hefur verið andvígur breytingum á kosningalögum, af því að fylgi hans var lengst af meira í fámennum kjördæmum en í fjölmennum.

Hinar skörpu línur milli flokka á þessu sviði hafa verið að óskýrast. Framsóknarflokkurinn sækir nú orðið töluvert af fylgi sínu til suðvesturshornsins og hefur þingmenn þar. Formaður Sambands ungra framsóknarmanna kemur einmitt frá Reykjaneskjördæmi.

Ungliðahreyfingarnar hafa sameinazt um að gagnrýna núverandi kosningalög, þótt þau séu svo nýleg, að þau hafa aðeins verið notuð við tvennar kosningar. Í ályktun þeirra segir, að það sé samdóma álit ungs fólks úr öllum flokkum, að þessi nýlegu lög hafi mistekizt.

Það er einmitt eftirminnilegt siðleysið, sem einkenndi samningu þessara illræmdu kosningalaga. Höfundar laganna voru þingmenn, sem höfðu á sínum snærum reikningsstráka, sem reiknuðu þingmenn inn og út af þingi til að finna leið, er truflaði þingmenn sem minnst.

Niðurstaðan varð illskiljanlegur bastarður, sem jafnaði kosningarétt eftir flokkum meira en eftir kjördæmum og tafði um leið, að gengið væri af alvöru að jöfnun atkvæðisréttar eftir búsetu. Enda er það fyrst á þessu ári, að farið er að bera mikið á óánægju með kosningalögin.

Ungliðahreyfingarnar benda á, að í vetur séu síðustu forvöð að breyta kosningalögunum, ef unnt á að vera að koma breytingunum í framkvæmd fyrir aldamót. Það stafar af, að breytingar gilda auðvitað ekki í fyrstu, heldur í öðrum kosningum eftir fyrstu samþykkt þeirra.

Niðurstaða ungliðahreyfinganna felur ekki í sér samkomulag um, hvaða leið skuli valin að jöfnuði atkvæðisréttar eftir búsetu, heldur aðeins um sjálft markmiðið við væntanlega kosningalagabreytingu. En það eitt út af fyrir sig er afar merkilegt tímamótasamkomulag.

Þar að auki er athyglisvert, að það kom í ljós, að innan flestra ungliðahreyfinganna er mest fylgi við, að landið verði allt gert að einu kjördæmi, þótt ekki sé einhugur um að mæla með þeirri leið. Fólk vill hreinar og einfaldar línur í kosningalög, en ekki verzlun milli flokka.

Ungliðahreyfingarnar hafa unnið gott verk, komizt að sameiginlegri niðurstöðu og fengið hreyfingu á málið. Eftir helgina munu þær halda sjónvarpsfund með forustumönnum flokkanna, þar sem þeir verða knúnir svara um viðbrögð þeirra við þrýstingnum á kosningalögin.

Aukinn jöfnuður á þessu sviði stuðlar að þeirri tilfinningu, að hér búi ein þjóð í einu landi. Slík tilfinning verður þjóðinni nauðsynleg á næstu árum, þegar hún stendur andspænis viðskiptalegum ávinningi af auknu samfloti með öðrum þjóðum og tilsvarandi rýrnun fullveldis.

Jafnari staða eftir búsetu, jafnari staða eftir aldri, jafnari staða eftir kynjum, jafnari staða eftir tekjum og jafnari staða eftir stöðu í kerfinu. Allt eru þetta atriði, sem hjálpa kvartmilljónar manna þjóð til að standa saman um það, sem mestu máli skiptir í brimasamri framtíð.

Vonandi leiðir framtak ungliðahreyfinganna til samkomulags stjórnmálokkanna á þessum vetri um ný og betri kosningalög, sem nýtist í þarnæstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV