Launafólk í landinu getur bætt kjör sín verulega og án þess að leggja út í herkostnað á borð við verkföll. Þetta getur fólk með því að skipta um forustu í stéttarfélögum og stéttasamböndum. Til skjalanna þarf að koma forusta nútímafólks, sem sér gegnum gamlar klisjur.
Hin hefðbundna aðferð kjarabaráttu felst í að heimta hærri laun í viðræðum við forustumenn samtaka atvinnurekenda og blása til verkfalla, ef tregt gengur að semja. Þessi aðferð hefur gefizt verr og verr á síðustu áratugum og er nú orðin nánast vonlaus með öllu.
Í gamla daga voru kauphækkanir einfaldlega hirtar til baka með verðbólgu og gengislækkunum. Síðan vísitölur og rauð strik komu til skjalanna hefur þurft flóknari leiðir til að eyða lífskjarabatanum, en allar ríkisstjórnin hafa fundið þær, ef þær hafa lagt sig fram.
Þetta hafa margar gamlar verkfallshetjur séð og eru því tregar til átaka af þessu tagi. Í staðinn hafa komið græningjar á borð við forustumenn kennara, sem hafa hvað eftir annað þurft að reka sig á nákvæmlega þá hluti, sem fyrir löngu voru kunnir í einkageiranum.
Langt er síðan náðist jafnvægi í hlutdeild lífskjara almennings í þjóðarbúskapnum. Síðan hefur ekki verið hægt að afla bættra lífskjara með því að sækja þau til atvinnurekenda. Þessi lexía hefur verið fyrir allra augum í nokkra áratugi, en samt skilizt fremur treglega.
Í seinni tíð hefur kjarabarátta einkum beinzt að félagsmálapökkum ríkisstjórna og loforðum þeirra um að stela ekki nýfengnum kaupmætti. Þessi aðferð hefur ekki gefizt miklu betur en hin fyrri, svo sem sést af því, að lífskjör hafa farið dalandi á síðustu árum.
Kjaraviðræður síðustu vikna eru hápunktur þessarar aðferðar. Þær hafa að litlu leyti falizt í kröfum á hendur harðskeyttum atvinnurekendum og að miklu leyti í kröfum um félagsmálapakka frá lingerðri ríkisstjórn. Þessi leið sprakk, af því að skotið var yfir markið.
Nú eru forustumenn launafólks að reyna að prófa gömlu aðferðina að nýju, en hafa ekki erindi sem erfiði, af því að forustumenn atvinnurekenda eru fastir fyrir. Hótanir um verkföll eru léttvægar, af því að við núverandi aðstæður treystir margt fólk sér ekki í átök.
Svo kann þó að fara, að verkföll séu nauðsynleg til að fólk skilji, að forustumenn launafólks eru ekki færir um að gæta hagsmuna almennings. Þeir eru stirðnaðir í gömlum hugarheimi kauphækkana og félagsmálapakka og geta með engu móti séð möguleika stöðunnar.
Nú á tímum er hægt að bæta lífskjör með því að leggja niður einokun og viðskiptahömlur. Með afnámi innflutningsbanns og einokunar í landbúnaði einum er hægt að bæta kjörin sem svarar 26.000 krónum á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.
Ef launafólk hætti að tefla fram klisjungum, sem hafa sannað vangetu sína, og veldi nútímafólk til forustu í kjaramálum, væri auðvelt að bæta lífskjörin, án þess að það sé á kostnað atvinnurekenda eða ríkissjóðs. Til þess þarf bara nýtt fólk með nýjan hugsunarhátt.
Bætt kjör á Íslandi felast í afnámi viðskiptahafta, þar á meðal í fjölþjóðlegu samstarfi, svo sem með samningum í GATT, alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum, og samningum um fríverzlun við helztu viðskiptablokkir heims, svo sem Evrópubandalagið, Bandaríkin og Japan.
Launakjör byrja fyrst að batna að nýju, þegar til forustu er komin í stéttarfélögum ný kynslóð, sem skilur nútímann. Á þeirri kynslóð örlar því miður ekki enn.
Jónas Kristjánsson
DV