Í viðtali Eiðfaxa við Ágúst Sigurðsson ráðunaut í þessu blaði leggur hann línur að framtíðarsýn til nýrrar aldar, þar sem verkfæri fagmanna verða fleiri og betri en þau hafa verið. Í viðtalinu er kafað ofan í margþætt umræðuefni hans á mannþingum og ráðstefnum á síðustu mánuðum og gefin fyllri mynd af ýmsum atriðum, sem þar hafa komið fram. Þetta heildstæða yfirlit á erindi til allra fagmanna í hestamennsku, til ræktunar- og tamningamanna, til sýningar- og kaupmanna.
Ágúst vill bæta kynbótamatið með því að auka það mörgum þáttum, sem eru mælanlegir eða verða mælanlegir. Hann vill, að matið nái til þols og mýktar, til kjarks og taugastyrks. Hann vill, að matið nái til heilbrigðisþátta á borð við spatt og exem, endingar og fyljunarprósentu. Hann vill, að matið nái til allra þátta hins fjölhæfa hests, sem nýtist til keppni, ferðalaga og útivistar.
Ennfremur vill hann, að athugasemdir dómnefnda fari inn í kynbótamatið, svo að fá megi nákvæmari mynd af hverjum eiginleika fyrir sig. Hann vill gera prófíla að geðslagi hrossa eins og það kemur fram, þegar eftirlitsdómarar taka út hross, sem Hólanemendur hafa verið með í tamningu á verksnámsbýlum. Hann sér fyrir sér, að kynbótamatið magnist smám saman upp í marghliða talnagrunn, sem verði öllum aðgengilegur og augljós og fyrst og fremst öllum gagnlegt verkfæri.
Fjölbreyttara matskerfi hægir á fækkun erfðaeiginleika hestsins og getur stöðvað hana. Hingað til hefur dóms- og matskerfið stuðlað að aukinni einhæfni stofnsins í samspili við feiknarlega notkun hins frjálsa markaðar á fáum tízkustóðhestum. Ágúst vill einnig ætternisgreina stofninn með lífsýnum og hampa stóðhestum, sem eru fjarskyldastir meðalstofninum. Loks vill hann flytja inn fósturvísa til að endurheimta einkenni, sem hafa glatazt eða eru að glatast úr landi.
Af viðtalinu er ljóst, að Ágúst lítur ekki á verkfæri og kerfi hvers tíma öðru vísi en sem börn hvers tíma. Hann lítur ekki á dómkerfi og kynbótamat sem endanlegan sannleika af himnum ofan, heldur sem árangur rannsókna og þess, sem bezt er vitað á hverjum tíma. Ef ræktun á þessum forsendum hefur um tíma þrengt og takmarkað hrossastofninn, þarf kerfið að vera sveigjanlegt til að hliðra til og spyrna á móti með fjölbreyttari upplýsingum, sem gefa heillegri mynd, byggðar á nýjum rannsóknum.
Það er þessi opnun hugans og inntaka nýrra hugmynda, sem byggðar eru á nýrri þekkingu, sem Ágúst hefur verið að mæla með á fundaferðum sínum og ráðstefnum að undanförnu. Allt bendir til þess, að hann hafi stuðning fagmanna, hvort sem þeir eru ræktendur eða tamningamenn, sýningarmenn eða kaupmenn, og annarra áhugamanna um velgengi íslenzka hestsins. Sem fagrit íslenzkra hestamanna, hvar á sviðinu sem þeir standa, hefur Eiðfaxi lagt og mun áfram leggja lóð sitt á þessa sömu vogarskál.
Við erum á þröskuldi nýrrar aldar og sjáum slóðina framundan.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 4.tbl. 2004