Ný óminnisleið.

Greinar

Fjórtán ára krakki hefur um nokkurt skeið legið meðvitundarlaus á gjörgæzludeild Borgarspítalans eftir hjartastanz af völdum svokallaðs sniffs, sem er í vaxandi notkun hjá sumum hópum unglinga á 12-16 ára aldri. Ýmis rokgjörn efni eru notuð til að komast í vímu, bensín, frostlögur, lím, þynnir og mörg fleiri, en algengast er kveikjaragasið orðið. Eftir kvikmyndasýningar þarf oft að hirða nokkurn fjölda tómra gasbrúsa. Læknar eru sammála um, að þetta séu hin hættulegustu vímuefni. Bæði landlæknir og borgarlæknir bentu á hér í blaðinu fyrir helgina, að bráðhætt er við bæði lifrarskemmdum og heilasköddun af hinum ýmsu sniffefnum. Þetta er ekki auðvelt viðfangs. Öldum og árþúsundum saman hafa menn leitað skjóls frá gráum hversdagsleika inn í draumaheim og óminni fíkniefna og áfengis. Krakkarnir í sniffinu eru að feta í fótspor langfeðganna. Unglingar á hinum óvissa breytingaaldri milli bernsku og fullorðinsára eru án efa veikari fyrir þörfinni á flótta heldur en flestir aðrir hópar þjóðfélagsins, einkum í hálffirrtu stórborgarumhverfi nútímans. Krakkarnir eiga erfitt með að komast yfir áfengi og hefðbundin fíkniefni, bæði vegna takmarkana og banns á sölu, svo og vegna eigin auraleysis. Sumir þeirra eiga þá eftir versta kostinn að eyðileggja sig á ódýru sniffi. Þetta er gamla sagan. Þeir, sem minnst mega sín, fá verstu útreiðina. Þeir, sem minnst hafa peningaráðin, verða að sæta ódýrustu og verstu lausninni. Á bannárunum var það skósverta. Nú er það lím og kveikjaragas. Fyrirsjáanlega verður mjög erfitt að hindra beina eða óbeina sölu þessara efna til íslenzkra unglinga. Flest gegna efnin nytsömu og nánast nauðsynlegu hlutverki á öðrum sviðum og verða því seint bönnuð algerlega. Samt hlýtur bann að vera aðferð, sem kemur til álita. Fíkniefni eru alténd bönnuð og áfengi hefur jafnvel verið bannað, þar á meðal einnig létt vín um tíma. En bann við rokgjörnum efnum í daglegri notkun er langtum erfiðara. Fræðsla er önnur aðferð, sem ekki hefur náð tilætluðum árangri á skyldum sviðum. Við sjáum það af tóbaksfræðslunni. Í sumum gagnfræðabekkjum reykir meirihlutinn, þrátt fyrir kvikmyndasýningar á eyðilögðum lungum. Kannski þarf að reyna að beita nýjum aðferðum, reyna til dæmis að virkja unglingana sjálfa, fá þá til að taka upp skipulega andstöðu. Sums staðar hefur tekizt að koma á því almenningsáliti, að ekki sé fínt að reykja. Þetta er hugsanlega líka hægt að gera til að verjast sniffinu, ekki eingöngu með því að fræða ofan frá, heldur með því að vinna gegn því innan frá, með eigin kröftum unglinganna, einkum þeirra, sem forustuna hafa. Erfiðasti þröskuldurinn er, að veröld margra krakka er grá og leiðinleg. Þeim leiðist heimili og skóli og hafa við lítið að vera. Þeir hafa ekki heldur þá staðfestu, er hinir eiga að hafa, sem komnir eru til fullorðinsára. Margir hinna fullorðnu eiga erfitt með að umgangast áfengi og sækja stíft í gleymskuna. Því er auðvelt að skilja, að sumir krakkar freistist til að nota efni, sem eru enn hættulegri, en mun ódýrari. Að þeim vanda verður þjóðin nú að snúa sér.

Jónas Kristjánsson

DV