Ný stéttaskipting

Greinar

Fyrir fjórum áratugum voru þekktust verkföll verkamanna í Dagsbrún. Síðar urðu smáhópar á borð við mjólkurfræðinga og flugliða kunnastir þeirra, sem lögðu niður vinnu. Upp á síðkastið hafa kennarar einkum verið duglegir við að fara í verkfall og sýna það, sem marxistar kölluðu stéttvísi.

Fyrir einni öld hefðu kennarar verið taldir í miðstéttinni eins og mjólkurfræðingar og flugliðar, það er að segja hvorki “vinnandi” stétt né yfirstétt, heldur virðuleg stétt þar á milli. Slíkar stéttir hefðu í þá daga ekki talið vera hugsandi að fara í verkfall, hvað þá í verkfallsvörzlu.

Lengi hafa félagsvísindamenn talið okkur trú um, að meiri menntun almennings og fjölgun skrifborðs- og þjónustustarfa væri að búa til þjóðfélag miðstéttarinnar. Fámennir 10% hópar væru á jöðrunum sem yfirstétt og undirstétt, en á milli væri komin 80% breiðfylking miðstéttar nútímafólks.

Ný brezk rannsókn bendir til, að þetta sé ekki aðalmálið. Mælingar sýna sífellt stækkandi hóp Breta, sem telur sig vera í stétt “vinnandi” fólks. Fyrir 50 árum töldu 46% sig vera í þeirri stétt, árið 2000 voru þeir komnir upp í 58% og nýjasta mælingin sýnir, að 68% Breta telja sig til hennar.

Menn telja sig ekki lengur til miðstéttar, þótt þeir hafi meira en 350.000 krónur á mánuði í fjölskyldutekjur. Menn telja sig ekki lengur til miðstéttar, þótt þeir eigi nýlegan bíl og búi í snyrtilegu húsnæði í góðu hverfi. Skilgreining fólks á lífi sínu og tilveru hefur breyzt í tímans rás.

Undirrótin að þessu er velgengni margra hópa, sem áður töldust vinna hörðum höndum, til dæmis iðnaðarmanna og byggingafólks, sem hafa lengi haft meiri tekjur en skólagengið fólk á borð við kennara. Töluverð röskun og skörun hefur orðið á tekjuskiptingu gömlu stéttanna.

Í framhaldi af brezku rannsóknunum fóru félagsfyrirtæki þar í landi að skipta því, sem áður var kallað miðstétt, í tíu mismunandi hópa fólks, til dæmis The Hornby Set, sem styður krata og Arsenal, er tæknilega sinnað og vel skipulagt. Notting Pillbillies eru svo vel stætt fólk í lopapeysum.

Þannig má lengi telja í gamansömum tón, sjáið nánar á vefnum www.theclassof2004.co.uk. Vafalaust á þessi brezka flokkun ekki við íslenzkar aðstæður, en trúlega er svipað að gerast hér, þjóðfélagið er að verða flóknara og sumir hópar kunna snögglega að átta sig á, að þeir fara halloka í lífinu.

Samanburður kennara á stöðu sinni í samanburði við stöðu ýmissa annarra hópa hefur gert þá róttækari og fúsari til aðgerða en áður var. Stjórnmálin þurfa að átta sig á því.

Jónas Kristjánsson

DV