Ný stjórnarskrá er auðveld.

Greinar

Eymd íslenzkra stjórnmálaflokka kemur vel fram í viðtökunum, sem ágætar tillögur stjórnarskrárnefndar hafa hlotið. Ýmist þegja málgögnin þunnu hljóði eða veifa eingöngu sértillögum sinna flokksmanna í stjórnarskrárnefnd.

Þremur dögum eftir opinberun tillaga nefndarinnar höfðu þær enn hvergi birzt á prenti nema hér í DV. Við birtum á miðvikudaginn lið fyrir lið hina gömlu stjórnarskrá, hinar nýju tillögur, skýringar á þeim og sérálit.

Morgunblaðið lætur hins vegar eins og þessar tillögur séu ekki til. Blaðið er eins og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins algerlega andvígt því, að sett verði stjórnarskrá, sem fólk kunni að tengja nafni Gunnars Thoroddsen.

Alþýðublaðið og Þjóðviljinn hafa fátt að segja um sameiginlegar tillögur stjórnarskrárnefndar, en breiða sig þeim mun meira út um sértillögurnar. Þau blöð hafa meiri áhuga á flokkspólitísku áróðursstríði en stjórnarskrá fyrir lýðveldið.

Ef stjórnmálamenn og málsvarar þeirra á prenti vildu nú gera svo vel að líta upp úr eymd sinni, er hægur vandi að ná víðtæku samkomulagi um nýja stjórnarskrá, því að tillögurnar eru komnar í aðgengilegt form til afgreiðslu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, tveggja stærstu flokkanna, í stjórnarskrárnefndinni standa að sameiginlegu tillögunum og hafa ekki sett fram neinar sértillögur. Þar er grunnur til að byggja á.

Sértillögur fulltrúa Alþýðuflokksins eru bæði fáar og stinga í fæstum tilvikum verulega í stúf við sameiginlegu tillögurnar. Yfirleitt er ágreiningurinn aðeins um orðalag, sem þolinmóðir menn ættu að geta samið um.

Að öðru leyti er sanngjarnt að byggja á þeirri meginreglu, að ná samkomulagi um þá leið, sem víkur minnst frá núgildandi stjórnarskrá. Þeim atriðum, sem ágreiningur er um, á að breyta sem minnst, svo að kjölfestan sé sem mest.

Efnislega séð víkur Alþýðuflokkurinn aðeins í tveimur atriðum frá hinum sameiginlegu tillögum. Hann vill afnema bráðabirgðalög og opna nefndafundi alþingis. Hvort tveggja er lýðræðislega rétt, en tæpast framkvæmanlegt.

Alþýðuflokknum ber að viðurkenna, að hann er lítill flokkur í samanburði við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, og að falla frá slíkum sértillögum, ef honum tekst ekki að fá stóru flokkana á sitt band með góðu.

Öðru máli gegnir um tillögur Alþýðubandalagsins. Þær eru hreinlega óbein beiðni um, að hinir flokkarnir þrír afgreiði nýja stjórnarskrá gegn ellefu atkvæðum Alþýðubandalagsins. Það er líka miklu meira en nógur meirihluti.

Alþýðubandalagið vill geta barið sér á brjóst og veifað tillögum sinna manna um friðlýst land, afvopnun og frið, útivist og ókeypis fræðslu, svo og helgan rétt manna til vinnu að eigin vali og annað áróðurshjal út í loftið.

Stjórnmálamenn annarra flokka verða að átta sig á, að Alþýðubandalagið er í eðli sínu ábyrgðarlaust. Þeir verða að sætta sig við, að bandalagið misnoti stjórnarskrármálið til að dansa kosningastríðsdans á hliðarspori.

Í heild sinni gefa tillögur stjórnarskrárnefndar öllum ábyrgum stjórnmálamönnum tækifæri til að lyfta gömlu flokkunum upp úr eymdinni og sýna kjósendum fram á, að þeir geti staðið saman, ef málið er nógu merkilegt.

Jónas Kristjánsson

DV