Ný tilraun til sjónhverfinga

Greinar

Bændasamtökin hafa sóað kvartmilljarði af skattfé og sjóðapeningum á fimm árum til að komast hjá alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun. Átaki þessu lýkur um áramótin án nokkurs árangurs annars en að níða skóinn niður af bændum í vottfestri lífrænni ræktun.

Hugmyndafræðin var að fá allt fyrir ekkert. Erlendis selst lífræn búvara á verði, sem er tugum prósenta hærra en sambærileg búvara, og söluaukningin nemur tugum prósenta á hverju ári. Bændasamtökin vildu komast án fyrirhafnar í þessa góðu framtíðarstöðu.

Þau lentu hins vegar í gíslingu hugmyndafræðings, sem bjó til hugtak vistvænnar framleiðslu, er ekki hefur alþjóðlega staðla að baki sér og selst þar af leiðandi ekki á sambærilegu verði. Hugmyndafræðingurinn sóaði kvartmilljarðinum í vonlausa markaðssetningu.

Ætlunin var, að íslenzk landbúnaðarframleiðsla fengi almennt vottun á vegum Bændasamtakanna fyrir að vera vistvæn og bændur spöruðu sér fyrirhöfnina við að breyta vinnubrögðum sínum til að ná vottun fyrir lífræna framleiðslu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hugmyndafræðingurinn beitti yfirþyrmandi krafti Bændasamtakanna til að reyna að fæla bændur frá því að afla sér vottunar fyrir lífræna framleiðslu og draga þá í staðinn inn í skýjaborgir um að fá vottun fyrir vistvæna framleiðslu út á óbreytta framleiðsluhætti.

Þetta tókst ekki, en tafði fyrir breytingu íslenzkra búskaparhátta í lífrænt horf. Á fimm árum hefur lítil sem engin þróun orðið á þessu sviði hér á landi, þótt lífræn ræktun og sala lífrænna afurða hafi margfaldazt í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins.

Bændasamtökin eru enn í gíslingu hugmyndafræðingsins og eru að leita leiða til að afla nýs kvartmilljarðs í tilraunir til að fá eitthvað fyrir ekkert. Í stað vistvænnar framleiðslu er nú farið að tala um lífræna framleiðslu með séríslenzku sniði, utan erlendra staðla.

Ætlunin er að skilgreina íslenzkan landbúnað eins og hann er sem lífrænan og setja um það séríslenzka staðla, svo að bændur þurfi lítið að leggja á sig í kostnaði og vinnu við að verða lífrænir. Þetta er ný sjónhverfing, sem verður ekki miklu farsælli en hin fyrri.

Séríslenzkir staðlar Bændasamtakanna öðlast ekki gildi í útlöndum. Þvert á móti munu menn sjá í þeim glæpsamlega tilraun til að komast hjá alþjóðlegum stöðlum. Því verða íslenzku vörurnar bannaðar, ef þær sjást, með vondum áhrifum á ímynd íslenzkra afurða.

Í krafti stöðu sinnar geta Bændasamtökin þvingað slíkum stöðlum upp á innlenda markaðinn, en hann mun ekki svara með því að borga meira fyrir vöruna. Þeir, sem nú kaupa lífrænt vottaða framleiðslu, munu ekki kaupa vöru, sem vottuð er með sjónhverfingum.

Sem oftar áður í landbúnaði gleyma menn að gera ráð fyrir neytendum. Menn spyrja ekki, hvað markaðurinn biðji um, heldur hvernig hægt sé að afsetja þá vöru, sem til er. Nýja átakið er fyrirfram dæmt til að mistakast, enda ætlað að verja atvinnu hugmyndafræðingsins.

Sorglegast við þetta er, að Bændasamtökin hefðu getað tekið lífræna ræktun upp á sína arma fyrir fimm árum og notað kvartmilljónina til að auka hana, í stað þess að níða hana niður vegna þess eins, að hún var þrándur í götu sjónhverfinga hugmyndafræðingsins.

Áður en samtökin brenna öðrum kvartmilljarði ættu þau að losa sig úr gíslingunni og hefja aðstoð við lífræna ræktun eins og hún er skilgreind um heim allan.

Jónas Kristjánsson

DV