Nýbúar eru afgangsstærð

Greinar

Þótt núverandi félagsmálaráðherra hafi gengið langt í að reyna hossa sér í fjölmiðlum vegna innflutnings nýbúa til landsins, hefur ráðuneytið staðið illa að málum. Nýbúarnir einangrast of mikið í sínum hópum og verða ekki eðlilegur þáttur í samfélaginu á hverjum stað.

Þetta kemur greinilega fram, þegar börnin fara að ganga í skóla. Mörg hver njóta þau sín illa vegna takmarkaðrar kunnáttu í tungumáli kennslunnar. Þau hafa minni möguleika en aðrir á að rífa sig upp til mennta og síðan til álna og áhrifa. Þau verða hálfgerð undirstétt.

Það sorglega í málinu er einmitt, að innflutningur nýbúa er lítið annað en hagsmunamál hnignunarbyggða, sem geta ekki mannað færibönd fiskvinnslunnar, af því að heimafólkið sækir suður, þar sem fjölmennið er og þar sem tækifærin eru. Litið er á nýbúa sem vinnuafl.

Ef svo fer fram, verður ástandið svipað og í öðrum Evrópulöndum, þar sem menn hafa reynt að leysa tímabundna mannaflaþörf með nýbúum án þess að fylgja málinu eftir á leiðarenda. Þegar þrengist aftur um vinnu hrannast upp vandamál, sem menn sáu ekki fyrir.

Eitt vandamálið er öfund heimamanna, sem missa vinnu, af því að margir nýbúar eru duglegri að bjarga sér en þeir. Í þessum jarðvegi vaxa upp hatursfullar skallabullur, sem efna til illinda við nýbúa og fylla dólgasveitir þjóðernisflokka af ýmsu tagi víðs vegar um Evrópu.

Annað vandamál er sá hluti nýbúa, sem ekki nær fótfestu í nýju þjóðfélagi og myndar lokuð samfélög, sem eru meira eða minna á framfæri hins opinbera og leiðast stundum yfir í skipulagða glæpi af ýmsu tagi. Slík undirheimasamfélög hafa vaxið víða um Evrópu.

Meðal afleiðinganna af öllu þessu er uppgangur þjóðernisflokka í mörgum Evrópulöndum, takmarkanir á innflutningi nýbúa og ýmsar brotalamir í samfélaginu. Við höfum ekki ráð á að endurtaka öll þau mistök, sem mörg ríki Vestur-Evrópu hafa gert á þessu sviði.

Möguleikarnir eru miklir. Nýbúar flytja með sér siði og hefðir, sem geta leitt til ánægjulegrar aukningar á fjölbreytni í annars einhæfu þjóðfélagi. Þekkt dæmi er af matargerð og veitingamennsku, sem verður fjölbreyttari, þegar nýbúar láta til sín taka á því sviði.

Við eigum að geta auðgað samfélagið með nýbúum, ef við opnum þjóðfélagið betur fyrir þeim og leyfum okkur þann munað að læra af siðum þeirra og hefðum. Af slíkri deiglu á Ísland að geta orðið öflugri aðili að heimsmarkaði vöru og þjónustu, menningar og afþreyingar.

Við gerum á móti þá kröfu, að nýbúar fallist fyrir sitt leyti á aðlögun að háttum heimafólks, einkum þeim er varða þjóðskipulagið, svo sem ríkistungumálinu og leikreglum vestræns lýðræðis. Úr þessu á að geta orðið ágætur vefur, þar sem íslenzki þátturinn er öflugastur.

Félagsmálaráðuneytið fer mikinn, þegar vinnuafl skortir á Blönduósi og þegar koma þarf mannlausum íbúðum í verð á Blönduósi. Ráðuneytið er að þjónusta sveitarfélög, atvinnurekendur og íbúðaeigendur, en ekki nýbúa, og notar þá til tímabundinnar lausnar vandamála.

Flestir þeir, sem að málinu koma, líta í rauninni á nýbúa sem eins konar farandverkafólk, sem gott sé að nota í uppsveiflu, en síðan megi sparka, þegar kemur að niðursveiflu. Menn líta á nýbúa sem afgangsstærð og horfast ekki í augu við ábyrgðina til langs tíma.

Þessu hugarfari þarf að breyta, ekki sízt í félagsmálaráðuneytinu, ef við ætlum að forðast mistök annarra þjóða og viljum virkja nýbúa sem þátt í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV