Nýbúar og þjóðardeigla

Greinar

Við erum langt á eftir flestum vestrænum þjóðum í innflutningi flóttamanna og eigum því að geta lært af reynslu annarra. Unnt á að vera að haga málum á þann hátt, að þjóðfélagið eflist við aðkomu nýbúa og geti tekið örar við þeim en gert hefur verið á undanförnum árum.

Síðustu árin hefur athygli manna í ýmsum nágrannalöndum okkar beinzt í auknum mæli að vandamálum, sem tengjast nýbúum. Annars vegar stafa þau af ófullkominni aðlögun þeirra og hins vegar af fordómum heimamanna, sem oftast eru flokkaðir sem kynþáttahatur.

Á allra síðustu vikum hefur fólk á Vesturlöndum vaknað við þá óþægilegu staðreynd, að meðal áhangenda íslams í hópi flóttamanna er til fólk, sem hafnar vestrænum gildum og telur eðlilegt eða skiljanlegt, að baráttumenn beiti hryðjuverkum gegn Vesturlöndum.

Undarlegt er, að fólk, sem hefur leitað skjóls í þeim hluta heimsins, sem er umburðarlyndari en aðrir heimshlutar, skuli nota skjólið til að grafa undan þeim hinum sama heimshluta. Samt er heilagt stríð prédikað af sumum íslömskum klerkum á Vesturlöndum.

Áður var vitað, að sumir hópar nýbúa vilja flytja með sér hefðir, sem eru andsnúnar grundvallaratriðum í vestrænni hugmyndafræði. Þar á meðal er umskurn barna og mismunun kynja, svo og sú stefna, að lög í helgum trúarbókum séu æðri veraldlegum lögum landsins.

Vesturlönd hvíla á nokkrum grundvallarforsendum, sem lengst af greindu þau frá öðrum. Þær eru frjálsar kosningar, mannréttindi að hætti stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, dreifing valdsins og gegnsæi þess, áherzla á lög og rétt og ekki sízt aðskilnaður ríkis og trúar.

Vesturlönd verða að geta krafizt þess og að vilja krefjast þess, að nýbúar lúti helztu þáttum þjóðskipulagsins. Annars leiti þeir ekki skjóls í heimshlutanum og yfirgefi hann raunar, ef þeir eru þegar komnir þangað. Vesturlönd mega ekki ala fimmtu herdeild við brjóst sér.

Hins vegar er nauðsynlegt að taka vel á móti nýbúum, ef þeir sætta sig við ofangreind skilyrði. Auðvelda þarf þeim að viðhalda tungumáli sínu og öllum siðum og venjum, sem ekki brjóta í bága við þjóðskipulagið. Allt slíkt auðgar og bætir menningu gestgjafalandsins.

Gott dæmi um slíkt er þáttur Indverja í brezku þjóðfélagi. Þeir eru orðnir áhrifamikill þáttur mikilvægra stétta á borð við lækna, kaupmenn og matreiðslumenn með þeim afleiðingum, að þessar starfsgreinar veita samfélaginu mun betri þjónustu en ella hefði verið.

Hindra þarf, að nýbúar safnist í eins konar undirheimaríki í ríkinu. Veita þarf meiri fjármunum en nú er gert til að bæta aðlögun þeirra og gera þá að gildum aðilum þjóðardeiglunnar. Því betur, sem þetta gengur, þeim mun meira auðgast þjóðfélagið af nærveru nýbúa.

Við erum inngróin eyþjóð, sem þarf að hrista af sér aldagamla einangrun og taka erlendum menningarstraumum opnum örmum. Við megum alls ekki að líta á nýbúa sem ódýrt vinnuafl, sem síðast er ráðið og fyrst rekið. Við þurfum að taka þá sem fullgilda Íslendinga.

Bitur reynsla nágrannaþjóða sýnir, að vandratað er meðalhófið í þessu efni. Við þurfum að leggja miklu meiri áherzlu á að læra af þessari reynslu, svo að við getum forðast skuggahliðar þjóðflutninga og lagt í staðinn rækt við björtu hliðarnar, sem eru margar og fjölbreyttar.

Markmiðið á að vera, að nýbúar verði í stakk búnir til að hjálpa okkur við að hindra að þjóðfélagið staðni. Þeir verði virkir aðilar að þjóðardeiglunni.

Jónas Kristjánsson

DV