Nýbúavandi í Frans og hér

Punktar

ÓEIRÐIR NÝBÚA geta komið til Íslands. Þær hafa nú staðið meira en viku í Frakklandi og nálgast miðborg ferðamanna í París. Við búum við svipuð vandamál og Frakkar og aðrir Evrópumenn, sem hafa frestað aðlögun nýbúa að þjóðfélaginu.

NÝBÚAR ERU EKKI bara ódýrt vinnuafl, fyrst í verktöku og fiskiðnaði og síðan í umönnunarstörfum. Nýbúar eru ekki tæki til að lina skort á fólki í illa borguðum störfum. Þeir eru fólk, sem þarf að taka afstöðu til. Ekki má einangra þá.

Í PARÍS og öðrum borgum Frakklands búa nýbúar sér í lélegum blokkahverfum, sem heimamenn forðast. Þannig er staðan líka í öðrum Evrópuríkjum. Hér hafa nýbúar ekki enn safnast saman í aðgreind hverfi, þar sem gilda sérlög og sérstakir siðir.

VIÐ ÞURFUM að laga nýbúa að þjóðfélaginu, annars verða þeir að óleysanlegu meini. Við þurfum að kenna þeim íslenzku ókeypis og hjálpa þeim að finna vinnu. Við megum ekki safna þeim á afmarkaða staði í ódýrum og illa hirtum blokkum.

AUÐVITAÐ VERÐUM við að krefjast þess á móti, að nýbúar virði íslenzk lög og íslenzka hugsun. Um frelsi einstaklinga gegn feðraveldi, um trúfrelsi og guðlast, um dómskerfið almennt. Annars verði nýbúar að flytjast aftur til fyrri heimkynna.

VIÐ ÞURFUM á nýbúum að halda til að fjölga þjóðinni og veita okkur strauma siða og menningar frá fjarlægum heimshornum. En við megum ekki gefa frá okkur þann frumburðarrétt, að hornsteinar vestræns þjóðskipulags hafi hér óskert gildi.

FRANSKA REYNSLAN sýnir, að ekki má taka vettlingatökum á þessu málum. Við þurfum á nýbúum að halda og þurfum því að hjálpa þeim til að verða gildir borgarar í þjóðfélaginu. Við höfum þessa dagana vítin að varast í nágrannalöndunum.

DV