Nýi kvótinn er úreltur

Greinar

Deilur alþingismanna um aukið kvótakerfi í fiskveiðum eru eðlileg afleiðing stjórnarhátta, sem hafa gengið sér til húðar. Kerfið var gallað frá fyrstu, en tilraunir til að skera annmarkana hafa leitt til nýrra lýta, sem hafa orðið sífellt tilefni endurskoðunar og átaka.

Niðurstaða nýjustu kvótalaganna, sem alþingismenn hafa hnakkrifizt um síðustu daga, er magnaðri miðstýring fiskveiða og meira geðþóttavald sjávarútvegsráðherra en nokkru sinni fyrr. Að lögunum settum hefjast svo ný átök til undirbúnings næstu lotu í lagasmíði.

Heimildir ráðherra til að ráðskast að geðþótta með hagsmuni í sjávarútvegi eru að gera hann að einvaldsherra greinarinnar. Það einvald kann að vera sæmilega menntað um þessar mundir, en gæti hæglega afmyndazt í höndum næsta ráðherra eða hins þarnæsta.

Sagnfræðin segir okkur, að svokallað menntað einræði þykir oft fínt í fyrstu, en leiðir alltaf fljótlega til hrakfalla. Hagfræðin segir okkur, að miðstýring á óskipulegum raunveruleika þykir oft nauðsynleg í hita leiksins, en leiðir jafnan innan skamms til ófarnaðar.

Meira að segja hafa yfirvöld í Sovétríkjunum siglt í kjölfar yfirvalda í Kína og gefizt upp á frekari miðstýringu af því tagi, sem felst í kvótalögunum. Í þessum höfuðríkjum kvótastefnu á öllum sviðum efnahagslífs er þegar farið að víkja frá henni í veigamiklum efnum.

Kvótalögin í sjávarútvegi minna á Framsóknarflokkinn eins og kvótareglurnar í landbúnaði gera, enda hefur flokkurinn um margra ára skeið lagt til ráðherra beggja sviða. Hann er þó ekki eini sökudólgur málsins, því að allir flokkar hafa tekið þátt í smíði kerfisins.

Árum saman hefur hér í blaðinu verið sagt, að bezt væri að taka upp sölu veiðileyfa í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskstofnarnir eru. Þessari skoðun hefur aukizt fylgi á síðustu mánuðum. Nokkrir lærdómsmenn hafa ritað dagblaðagreinar til stuðnings sölu veiðileyfa.

Með veiðileyfum bindur ríkið heildarmagn aflans og verndar þar með fiskstofnana. Um leið leyfir það veiðunum að leita hins eðlilega og hagkvæma farvegs, er leiðir til sem mests árangurs með sem minnstri fyrirhöfn, án þess að skömmtunarstjórar séu á hverju strái.

Þetta er ekki auðveldur biti í hálsi stjórnmálamanna. Deilur þeirra snúast nefnilega að nokkru leyti um, hverjir þeirra eigi að skipa hlutverk skömmtunarstjóra, hvort það eigi að vera ráðherrann með embættismönnum sínum eða þingmenn ýmissa kjördæmishagsmuna.

Þótt veiðileyfi séu boðin upp og seld þeim, sem bezt býður, geta stjórnmálamenn áfram gælt við ýmsa sérhagsmuni og greitt þá niður, til dæmis af stórfé því, sem aflast með sölu veiðileyfa. Þannig geta þeir áfram stuðlað að byggð á þessum stað frekar en hinum, ef þeir vilja.

Uppboð veiðileyfa leiðir til sérhæfingar. Sumir munu sérhæfa sig í að eiga góð skip til að leigja öðrum. Afla skipstjórar munu gera bandalög við góðar áhafnir um að taka skip á leigu. Það geta líka vinnslustöðvar gert, til dæmis í félagi við starfsfólk eða sveitarstjórnir.

Sala veiðileyfa er leið markaðslögmála að því markmiði, að beztu skipunum stýri mestu aflakóngarnir með beztu áhafnirnar og landi hjá þeim vinnslustöðvum, sem hagkvæmastar eru í rekstri og bezt borga. Þannig græðir þjóðfélagið á góðu hlutfalli árangurs og fyrirhafnar.

Greindarskortur, hagsmunastríð og íhaldssemi valda því, að þingmenn eru ekki að setja lög um sölu veiðileyfa, heldur um kvóta, einveldi, skömmtun og fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV