Nýja stjórnin er gömul

Greinar

Nýja ríkisstjórnin, sem tekur við á morgun, mun starfa nokkurn veginn í sama anda og hin fyrri. Helzta breytingin er, að nýir menn koma inn fyrir gamla. Að stefnu til felst veganesti nýju stjórnarinnar í að halda áfram í sama farvegi og gamla stjórnin.

Eina umtalsverða frávikið í stjórnarstefnunni er, að nýja stjórnin hefur fyrirfram gefizt upp við tilraunir til að spara og skera niður í opinberum rekstri. Slík voðamál voru alls ekki rædd í samningum um myndun stjórnarinnar. Áður gátu menn ekki, en reyndu þó.

Úr því að hvorki má spara né skera niður, að mati nýju stjórnarinnar, er illskárra að hækka skatta en að halda áfram miklum halla á ríkisbúskapnum. Nýja stjórnin ætlar sem betur fer að hækka skatta í stað þess að hlýða skottulæknum, sem segja halla meinlítinn.

Að mörgu leyti er hinn gamli farvegur ágætur. Raunvextir hafa innleitt bætta notkun peninga og aukið framboð á lánsfé. Fiskmarkaður og frjálst fiskverð hafa ýtt sjávarútvegi á framtíðarbraut. Verðbólga hefur verið mun minni en allar götur síðan í Viðreisn.

Ef nýja stjórnin varðveitir þessa nýlegu hornsteina velmegunar, verður hægt að fyrirgefa henni margt annað. En í margorðum gögnum hennar bendir fátt til, að hún ætli að bæta við nýjum hornsteinum. Það er ekki kjarkmikil ríkisstjórn, sem tekur við á morgun.

Stóri meginþröskuldurinn í vegi framfara verður látinn liggja óhreyfður. Fyrsta atriðið, sem flokkarnir þrír komu sér saman um, var, að ekki skyldi hreyfa við stefnunni í hefðbundnum landbúnaði. Hún felst m.a. í ríkisábyrgð í nýlegum og umdeildum búvörusamningi.

Ekki skiptir miklu, hver framkvæmir þessa makalausu verðmætabrennslu. Jón Helgason er að því leyti heppilegri en margir aðrir, að hann hefur ekkert samvizkubit. Önnur efni í öskuhaugaráðherra gætu farið á taugum, þegar gefur á bátinn. Sem verður oft.

Hið eina, utan nýrra ráðherra, sem Alþýðuflokkurinn hefur í farteski sínu í flutningnum upp í stjórnarkerruna, er óljóst og lítt áþreifanlegt tillit, sem á að taka til sérútgáfu Jóhönnu Sigurðardóttur af gömlu kerfi verkamannabústaða og af nýjum kenningum um búsetu.

Líklega verður Jóhanna eini ráðherrann, sem ekki mun líða feiknarvel í sessi. Hætt er við, að áhugamál hennar hafi lítinn hljómgrunn í þessari ríkisstjórn. Því verður henni nánast ókleift að mæta kjósendum aftur í kosningum sem eins konar íslenzk Jóhanna af Örk.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, má lesa milli lína í annars marklitlum gögnum á borð við stefnuyfirlýsingu og verkefnaskrá. Sjálfur textinn er hins vegar meiningarlaust hjal um takmarkalaust góðan, 24 blaðsíðna vilja hinnar nýju ríkisstjórnar á öllum sviðum.

Auðvitað eru það svo mennirnir, en ekki málefnin, sem mestu skipta. Málefnin eru bara orð á pappír, en mennirnir hafa völd. Íslenzka stjórnkerfið afhendir ráðherrum mikil völd og því miður líka mikla möguleika á að misnota völdin og hundsa stjórnarskrá og lög.

Sem betur fer bendir allt til, að Sverrir Hermannsson verði ekki aftur ráðherra. Ráðherraferill hans var með þeim hætti, að Bandaríkjamenn hefðu sagt, að hann sveipaði sig þjóðfánanum og hrækti á stjórnarskrána. Bezt væri að fá að líta á þetta sem afmarkað slys.

Annars er nýja stjórnin framhald gömlu stjórnarinnar og markar engin sérstök tímamót. Hún flytur ekki með sér nýjar hættur og ekki heldur ný ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV