Nýjar dauðagildrur

Greinar

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir tímabilið 1996­2012 er kafli um stígakerfi borgarinnar, þar sem fjallað er um göngustíga, hjólastíga og reiðstíga. Í inngangi kaflans segir skýrum stöfum í forsendum, að leiðirnar skuli vera “öruggar og greiðfærar”.

Í undirkafla aðalskipulagsins um reiðleiðir í borgarlandinu segir ennfremur skýrum stöfum: “Innan byggðar og í næsta nágrenni er gert ráð fyrir sérstökum reiðgötum, sem eru aðskildar frá öðrum stígum. Þessir stígar eru malarlagðir og um 3­3,5 metra breiðir.”

Þessar forsendur eru ekki ástæðulausar. Hestar eru hvorki menn né vélar. Þeir geta orðið afar hræddir og hræddastir eru þeir við reiðhjól og skíði. Þegar þeir taka á rás, verða þeir að rúmlega 300 kílóa dreka, sem stöðvast ekki fyrr en heima í örygginu við hesthúsið sitt.

Þegar reiðhjól og hestur mætast í stígakerfinu, má búast við, að hesturinn taki á rás. Þá verður fyrst slysahætta á reiðmanninum, sem getur fallið af baki. Síðan verður slysahætta á leið hestsins heim, þegar hann getur hlaupið á gangandi fólk og hjólreiðamenn.

Reykjavíkurborg hefur þverbrotið aðalskipulagið í sumar og haust með því að leggja reiðhjólabrautir um athafnasvæði hestamanna á Víðivöllum, leggja þessar brautir samhliða reiðleiðum í undirgöngum og leggja þessar brautir síðan kruss og þvers yfir reiðleiðirnar.

Fram til síðasta hausts var greiður aðgangur hestamanna um reiðleiðir á Víðivöllum og upp úr byggðinni. Gerð voru undirgöng til að beina þessari umferð frá bílaumferðinni. Sæmileg sátt var um þetta ástand, sem Reykjavíkurborg hefur nú hleypt í bál og brand.

Hægur vandi var að leggja nýju hjólreiðabrautirnar utan við athafna- og tamningasvæði hestamanna á Víðivöllum, leggja þessar brautir í sérstök undirgöng og framlengja þær síðan upp úr byggðinni á öðrum stöðum en reiðstígarnir, sem fyrir voru á svæðinu.

Þegar framkvæmdir borgarinnar urðu sýnilegar síðla sumars, gekk maður undir manns hönd að reyna að hafa vit fyrir hönnuðum verksins, verkfræðingum og pólitískum yfirmönnum þeirra. Strax var eindregið varað við verkinu í fjölmiðlum, þar á meðal hér í blaðinu.

Skemmst er frá því að segja, að ekki hefur gengið að hafa vit fyrir þeim, sem hafa heimskuna og hrokann efst í farteskinu. Fremstur fer þar í flokki gatnamálastjóri borgarinnar, sem hirðir ekki einu sinni um að mæta á fundi, er hann boðar sjálfur á skrifstofu sinni.

Í aðvörunum fjölmiðla var þegar í upphafi bent á mikla slysahættu, sem fylgir augljósum brotum Reykjavíkurborgar á eigin aðalskipulagi. Þá þegar var augljóst, að margir mundu minnast embættismanna og stjórnmálamanna borgarinnar, þegar slysin hæfust.

Slysin byrja væntanlega ekki fyrr en í vor. Þá fyrst verða hönnuðir verksins og verkfræðingar, gatnamálastjóri og skipulagsnefnd að svara til saka fyrir brot sín á aðalskipulagi borgarinnar. Þá munu pólitískir ráðamenn borgarinnar taka út þjáninguna fyrir mistökin.

Enginn utanaðkomandi aðili, sem hefir skoðað verkið, sér neitt vit í því. Reiðhjólabrautirnar upp úr Elliðaárdal eru samfelld endaleysa frá a til ö. Samt er tregðan í borgarkerfinu svo stjórnlaus, að heita má, að pólitískir yfirmenn skipulagsins séu meðvitundarlausir með öllu.

Þessi brot á aðalskipulagi Reykjavíkur gefa skýra mynd af stöðnuðu borgarkerfi, þar sem ferðinni ræður vanhæft fólk, sem gæti ekki unnið fyrir sér úti í lífinu.

Jónas Kristjánsson

DV