Nýjar hömlur á fisk

Greinar

Hefðbundinn landbúnaður er fleiri þjóðum óþægur ljár í þúfu en Íslendingum einum. Talsmenn landbúnaðarins hér á landi minna stundum á, að nokkrar aðrar þjóðir styðji landbúnað sinn með upphæðum, sem séu svipaðar á hvern bónda og þær eru hér á landi.

Þar sem hefðbundinn landbúnaður í þessum fáu löndum, svo sem Noregi og Svíþjóð, er minni hluti atvinnunnar en hann er hér á landi, gildir þó, að hvergi í heiminum er stuðningur við landbúnað eins þungur á hvern skattgreiðanda og neytanda og hann er hér á landi.

Augljóst er þó, að styrkir til landbúnaðar tíðkast víða í auðugum iðnaðarríkjum og eru hvergi illræmdari en einmitt í Evrópubandalaginu. Þar var samstarf milli þjóða að ýmsum framfaramálum keypt afar dýru verði, verndun bænda í Vestur-Þýzkalandi og Frakklandi.

Tangarhaldið, sem landbúnaðarráðherrar ríkja Evrópubandalagsins hafa á fjármálum þess, kemur bezt í ljós af, að þrír fjórðu hlutar af fjárlögum þess fara í greiðslur vegna hefðbundins landbúnaðar. Þetta ástand hefur lítið sem ekkert lagazt á undanförnum árum.

Með því að tolla innflutning á búvöru heldur Evrópubandalagið uppi óeðlilega háu verði í ríkjum bandalagsins. Með því að selja offramleiðsluna á niðursettu verði reynir það að losna við hana í samkeppni við landbúnaðarríki, sem reyna að keppa á alþjóðamarkaði.

Evrópubandalagið stundar þannig óheiðarlega viðskiptahætti gagnvart landbúnaðarríkjum á borð við Bandaríkin, Argentínu, Ástralíu og Nýja-Sjáland, svo og mörg ríki þriðja heimsins, sem geta framleitt búvöru á mun ódýrari hátt en gert er í Vestur-Evrópu.

Hér á landi brauðfæðir starfsmaður í landbúnaði sem svarar tíu manns. Í löndum Evrópubandalagsins brauðfæðir starfsmaðurinn tvöfalt fleiri eða sem svarar tuttugu manns. Í Bandaríkjunum brauðfæðir hver starfsmaður í landbúnaði sexfalt eða sextíu manns.

Samanburðurinn sýnir, að í Bandaríkjunum eru mun betri aðstæður til landbúnaðar en í Vestur-Evrópu, svo að ekki sé borið saman við Ísland, sem kúrir norður í höfum. Fyrir neytendur hlýtur að vera hagstætt að fá að nota sér hagkvæmni landbúnaðarríkjanna.

Það er einmitt eitt meginmarkmið svokallaðra Uruguay-viðræðna í tollasamtökunum GATT. Þar hefur verið um nokkurt skeið stefnt að því að fá lækkaða og brotna tollmúra og innflutningshöft á búvöru, svo að neytendur um allan heim fái að njóta lága verðsins.

Bandaríkin hafa í GATT lagt til, að þátttökuríkin lækki útflutningsuppbætur á búvöru um 90% og niðurgreiðslur á búvöru um 75%, hvort tveggja á tíu árum. Evrópubandalagið treystir sér ekki til þess og er veikum mætti að reyna að koma saman pakka upp á 30% niðurskurð.

Ísland stendur sig enn verr en Evrópubandalagið. Okkar menn hafa skilað inn tilboði, sem felur í sér nokkurn veginn óbreytt ástand. Alveg eins og hjá Evrópubandalaginu var landbúnaðarráðherra falið að setja fram tilboðið. Það var því ekki von á góðu.

Bandaríkin og hagkvæm landbúnaðarríki heimsins munu ekki gera sér þessa afgreiðslu að góðu. Bandaríkin hafa þegar komið sér upp heimildum, sem leyfa forseta þeirra eða skylda hann til að taka upp refsingar gegn ríkjum, sem mismuna búvöru frá Bandaríkjunum.

Tregða Evrópubandalagsins og ríkja á borð við Ísland getur leitt til viðskiptastríðs, með hömlum á innflutningi iðnaðarvöru frá Evrópu og á fiski frá Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV