Öll dýrustu veitingahús landsins hafa sömu matreiðsluna. Hún er einmitt kennd í hótelskólanum, nýklassísk eldamennska frá Frakklandi. Árlega fer sveit kokka til Lyon til að taka þátt í Bocuse-keppni, sem er í þessum stíl. Hér á landi er enginn markaður fyrir tíu-fimmtán veitingahús af þessu tagi, enda verða menn fljótt leiðir á að éta mat, sem framleiddur er meira fyrir útlitið en bragðið og ber litla virðingu fyrir eðlisbragði hráefna. Fólkið í bænum flykkist á suma veitingastaði, en nýklassísku húsin standa hálftóm. Hver vill líka borga 6000-8000 krónur fyrir að éta skúlptúr?