Leppstjórn Bandaríkjanna í Írak á í mestu vandræðum með réttarhöldin yfir einræðisherranum Saddam Hussein. Þrýst var á Rizgar Amin dómara að herða réttarhöldin, svo að hann sagði af sér vegna þrýstings stjórnvalda. Nú er kominn nýr dómari, Abdel Rahman, sem lætur vísa sakborningum úr salnum, ef þeir eru með múður. Fréttastofa Reuters segir líklegt, að hann nái tökum á salnum. Það verður ekki seinna vænna, því að réttarhöldin hafa lengi verið skrípaleikur og stundum öngþveiti. Í gær var rekinn út hálfbróðir Husseins, Barzan al-Tikrit.