Ráðamenn fimmtánveldanna í Evrópusambandinu eru ákveðnir í að undirrita Kyoto-bókunina um aðgerðir gegn gróðurhúsalofttegundum og eru reiðir Bandaríkjastjórn, ekki bara fyrir fráhvarf hennar frá bókuninni, heldur einnig fyrir undirferli og svik í tengslum við hana.
Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fékk 180 þjóða fundinum í Bonn um Kyoto-bókunina frestað um tvo mánuði til að semja tillögur um breytingar á texta hennar. Hann lofaði þar á ofan, að fresturinn yrði ekki notaður til að grafa undan bókuninni.
Þegar fundurinn er nú hafinn seint og um síðir, kemur í ljós, að Bandaríkjastjórn hefur alls ekki notað frestinn til að semja neinar nýjar tillögur, heldur til að beita Japan, Ástralíu og Kanada þrýstingi til að falla frá Kyoto-bókuninni. Colin Powell var bara að ljúga að Evrópu.
Þar á ofan hefur Bandaríkjastjórn fallið frá loforði, sem hún gaf í tengslum við frestunina, um að borga 250 milljónir dollara í sjóð til aðstoðar þriðja heiminum við að hamla gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ekkert samband virðist lengur vera milli loforða og gerða.
Ýmsir ráðamenn í Evrópu hafa tjáð sig vafningalaust um undirferlið. Þar á meðal eru Jan Pronk, forseti ráðstefnunnar í Bonn, og Margot Wallström, umhverfisráðherra Evrópusambandsins. Ljóst er, að lygar Powells eru einnota, því að menn treysta honum ekki lengur.
Öll fimmtán ríki Evrópusambandsins styðja Kyoto-bókunina eindregið, þótt hún geri ráð fyrir meiri samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en í Bandaríkjunum og Japan. Þessir þrír heimshlutar bera mesta ábyrgð á uppsafnaðri loftmengun frá fyrri tímum.
Reiði ráðamanna Evrópu endurspeglar skoðanir almennings í þessum löndum. Mönnum finnst almennt lélegt hjá Bush Bandaríkjaforseta að segja Bandaríkin ekki hafa efni á aðgerðum í samræmi við Kyoto-bókunina og segja þriðja heiminn þurfa að taka meiri þátt.
Mikill meirihluti kjósenda í Evrópu styður öll umhverfissjónarmið núverandi fjölþjóðaumræðu, þar á meðal Kyoto-bókunina, sem nýtur til dæmis stuðnings 86% Þjóðverja. Raunar má segja, að pólitísk samstaða hafi náðst í Evrópu um öll helztu stefnumál grænu flokkanna.
Svipuð þróun hefur orðið í Bandaríkjunum, þar sem 71% kjósenda vill tafarlausar aðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Afturhvarf stjórnar Bush Bandaríkjaforseta til frekari rannsókna í stað aðgerða, nýtur því ekki stuðnings almennings í hans eigin landi.
Það er nú að renna upp fyrir mönnum í Bandaríkjunum, að Bush hefur logið sig inn á þjóðina. Hann er fyrst og fremst hagsmunagæzlumaður fyrirtækja í afmörkuðum geirum efnahagslífsins, svo sem olíuiðnaðarins og timburiðnarðarins, sem heimta meira svigrúm fyrir sig.
Ótrúlegt er, að kjósendur sætti sig lengi við ríkisstjórn, sem vill, að Bandaríkin verði áfram langmesti umhverfissóði veraldar og haldi ótrauð áfram að eitra framtíð barna okkar og barnabarna. Umhverfisbaráttan mun í vaxandi mæli snúast um að fella fylgismenn Bush af þingi.
Bandarískir kjósendur hljóta að fara að sjá vaxandi einangrun landsins á mörgum öðrum sviðum, í andstöðu Bandaríkjastjórnar við alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, við alþjóðabann við milliríkjaverzlun handvopna, við alþjóðabann við jarðsprengjum, svo að dæmi séu nefnd.
Eftir valdatöku Bush hafa Bandaríkin færzt óðfluga í stöðu einangraðs höfuðóvinar mannkyns um þessar mundir. Bandaríkjamenn munu ekki lengi þola það.
Jónas Kristjánsson
DV