Nýr nagli í kistuna

Greinar

Enn einu sinni er staðfest, að stuðningur skattgreiðenda og neytenda við innlendan landbúnað er allt of mikill og með því hæsta, sem þekkist í heiminum. Að þessu sinni kemur þetta fram í skýrslu Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar OECD um íslenzkan landbúnað.

Tillögur stofnunarinnar eru svipaðar og löngum hafa verið settar fram hér í blaðinu. Stjórnvöld verða að hætta afskiptum af verðlagninu búvara og afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, svo og að gera kleifa aukna samkeppni af hálfu innflutnings.

Ekkert af þessu mun ríkisstjórnin gera. Komið hefur fram, að hún fer aldrei bil beggja, þegar hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi. Hún hindrar til dæmis alveg, að undirritun samningsins um Alþjóða viðskiptastofnunina komi innlendum neytendum að tilætluðu gagni.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar er athyglisverð, af því að þar er beitt sömu reikningsaðferðum og sama stofnun hefur áður beitt í hliðstæðum skýrslum um landbúnað í öðrum aðildarríkjum stofnunarinnar. Hún er því góð til samanburðar við útlönd.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerir þó strax þá athugasemd við aðferðir OECD, að þar vanti mat á þeim séríslenzku aðstæðum, að framleiðendur eiga afurðastöðvarnar og ráða verðinu. Það mat var hins vegar tekið inn í svipaða athugun hjá Hagfræðistofnuninni.

Alþjóða efnahagsframfarastofnunin mat markaðsstuðninginn við íslenzkan landbúnað á tíu milljarða króna á ári. Hagfræðistofnun Háskólans hafði áður metið hann á sautján milljarða króna. Hún mun nú skoða hina nýju útreikninga og bera saman við þá fyrri.

Tíu milljarðar á ári eru mikið fé. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem verður að loka sjúkradeildum barna og geðveikra. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem hefur ekki ráð á að halda dampi í skólakerfinu. Það er mikið fé fyrir þjóð, sem býr við fjöldagjaldþrot heimila almennings.

Hins vegar er útilokað fyrir Íslendinga að væla út af lokunum sjúkradeilda, forgangsröðun sjúklinga, skólagjöldum og niðurskurði námslána, erfiðleikum í endurgreiðslum húsnæðislána og lélegum lífskjörum yfirleitt. Það eru þeir, sem hafa gefið landbúnaðinum forganginn.

Íslenzkir kjósendur hafa gefið nær öllum stjórnmálaflokkum landsins og þar með báðum stjórnarflokkunum umboð til að taka landbúnaðinn fram yfir aðra velferð þjóðarinnar með tíu eða sautján milljarða markaðsstuðningi á hverju ári. Um þennan forgang er þjóðarsátt.

Hinir árlegu tíu eða sautján milljarðar eru því ekki notaðir í skóla og sjúkrahús, lánasjóði og húsnæðissjóði. Þeir eru ekki notaðir til að lækka byrðar skattgreiðenda. Og þeir eru ekki notaðir til að bæta lífskjör almennings með lægra vöruverði. Þetta eiga kjósendur að vita.

Skýrsla Alþjóða efnahagsframfarastofnunarinnar sýnir það, sem oft hefur verið sagt hér í blaðinu. Hún sýnir, að íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti félagslega kerfisins og er þar í samkeppni við skóla, sjúkrahús, trygginar, húsnæðislán og fleira slíkt.

Samkvæmt skýrslunni eru þrjár af hverjum fjórum krónum af tekjum landbúnaðarins komnar frá þessu opinbera stuðningskerfi. Þetta gekk, þegar sjávarútvegurinn gat framleitt verðmæti upp í hítina. Þegar geta sjávarútvegsins byrjar að bila, brestur ómagakerfið.

Fyrir aldarfjórðungi var byrjað að leggja til hér í blaðinu, að bændum yrði borgað fyrir að hætta búskap. Það er erfiðara í atvinnuskortinum nú, en samt ekki of seint.

Jónas Kristjánsson

DV