Nýr síðbitastaður

Veitingar

*

Angelo við Laugaveg er sízt Miðjarðarhafsættar. Matseðillinn líkist mest bandarískum skyndibitastað, en framreiðslan er svo hæg, að nærtækara er að kalla hann síðbitastað. Þarna eru boðnir hamborgarar; jöklasalöt Cesar, Cajun og Cob; Tex-Mex Nachos og Buffalo Wings, allt gamalkunnug fyrirbæri frá skyndibitastöðum.

Við þetta bættist einn wok-pönnu réttur, sem kalla mætti hálfkínverskan og einn pilaf-hrísgrjónaréttur, sem kalla mætti hálfindverskan. Miðjarðarhafið kemur við sögu í spánskri pælu. Hvítlauksbrauðið er kallað Bruschetta en Ítalíu sá ég að öðru leyti hvergi bregða fyrir á matseðli, ekki einu sinni í salötum eða pöstum.

Angelo fær stjörnu fyrir umhverfið. Þetta er þrauthannaður staður og smart, langur og mjór, með bar í miðjunni. Grunsamlegt var að sjá sjónvarpsskjá, en hann var ekki í gangi. Rauðir veggir kallast á við rauða stóla bakháa. Heill viður er í gólfi og marmarasalli í borðum, þar sem eru kertaljós og hnífapör vafinn í pappírsþurrkur.

Loftræstingin virtist vera væg, því að mikil tóbakslykt var á staðnum, einkum úr afskekktu sófahorni innst, þar sem stöðugt rennirí af fólki var að hitta mann, sem virtist vera bossinn á staðnum. Hjón, sem komu inn meðan við sátum þar, kvörtuðu yfir lyktinni og hrökkluðust út.

Buffalo-kjúklingavængir voru frambærilegir, greinilega steiktir upp úr nýrri feiti, bornir fram með tveimur sósum í glerbollum, annarri sterkri og hinni mildri, svo og með lítt merkilegu hrásalati, aðallega jöklasalati.

Kjúklinga-nachos voru stökkar tortillu-flögur, sem voru svo mikið ostbakaðar, að rétturinn hékk allur saman á ostinum eins og klessa, þar sem rauð salsa, græn lárpera, ljósir kjúklingabitar hékk allt saman á einum gaffli, ekki lystug framsetning.

Pæla með dósabollufiski, sem var rauðhúðaður eins og surimi, var ekki beinlínis vond, en getur engan veginn talist merkilegur aðalréttur. Pælan sjálf hefði ekki fengið háa einkunn á Spáni.

Heldur betri var wok-pönnuréttur dagsins með frambærilegum laxi og skötuseli og miklu af íslenzkt þjóðlegri sveppasósu, en var skaddaður af of mikið salti, sem yfirgnæfði annað bragð réttarins.

Ég álpaðist hér inn, þótt ég sé óvanur að meta bitastaði. Hafði lesið, að staðurinn vísaði til Miðjarðarhafs og Ítalíu, þaðan sem nafn hans er komið. En Angelo bar alls engin merki slíks. Verðið er hins vegar lágt, aðalréttir 1630 krónur að meðaltali

Jónas Kristjánsson

DV