Nýsjálenzkur gustur

Greinar

Nýsjálendingar voru fyrir sex árum komnir í svipaðan sjávarútvegsvanda og við erum í. Þeir ofveiddu fiskinn og höfðu samt lítið upp úr krafsinu. Þeir voru hins vegar svo gæfusamir að taka þá upp kvótakerfi, sem er miklu betra en okkar og gerði útgerð þeirra arðbæra.

Veigamesti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er frjáls markaður með kvótann. Hann gengur kaupum og sölum eins og hver vill, að öðru leyti en því, að útlendingar mega mest eiga 50% í hverri útgerð. Árangurinn er frábær og minnir helzt á kraftaverk.

Hér hins vegar er drottnunargjarn sjávarútvegsráðherra látinn skammta kvótann á nokkurra ára fresti eftir flóknum reglum og enn flóknari undantekningum. Sú aðferð hæfir þjóðfélagi, þar sem almenningur telur embættismenn hæfasta til að reka atvinnulífið.

Annar mikilvægasti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er kvótinn ekki miðaður við skip. Þar þurfa menn því ekki eins og hér að liggja á gömlum manndrápsfleytum eða komast yfir þær með ærnum tilkostnaði til að halda kvóta eða komast yfir hann.

Hitt skiptir svo minna máli, hverjum upphaflega var úthlutaður kvótinn í gamla daga á Nýja-Sjálandi. Það er orðin sagnfræði, því að 20% kvótans ganga kaupum og sölum á hverju ári. Einhverjir hafa þénað vel fyrir sex árum, en nú er það þjóðfélagið, sem þénar mest.

Árum saman hefur hér í blaðinu og af mörgum fleiri aðilum verið mælt með, að íslenzki kvótinn færi á frjálsan markað. Ragnar Árnason lektor hefur lagt til, að hver einasti Íslendingur fái eignarbréf upp á sinn hluta kvótans til ráðstöfunar að sínum eigin geðþótta.

Slíkt hljómar eins og klám í eyrum Framsóknarmanna allra flokka og ráðuneyta, sem vilja hafa vald til að deila og drottna. Þeir vilja hafa einhvern guð almáttugan á borð við núverandi sjávarútvegsráðherra til að skammta brauðið ofan í gæludýr og útigangshross.

Hinn þriðji meginmunur nýsjálenzka kerfisins og hins íslenzka er, að þar er kvótinn ekki ókeypis, heldur tekur samfélagið af honum leigugjald eða skatt. Það minnir á tillögur um sölu veiðileyfa, sem mætustu menn hafa löngum lagt til, að komið verði á fót hér á landi.

Raunar er ekkert í nýsjálenzka kerfinu, sem ekki hefur verið tönnlast á hér á landi árum saman. Í þeirra gæfu er ekkert, sem meinar hana Íslendingum. Með hæfari útvegsráðherrum og hæfari oddamönnum hagsmunaaðila hefðum við getað náð nýsjálenzkum árangri.

Þar hefur fækkað skipunum, sem gerð eru út. Það hefur lækkað fastakostnað útgerðarinnar langt umfram leigugjaldið, sem tekið er. Allir hafa grætt á þessu, sjómenn, útvegsmenn, fiskvinnslan og samfélagið. Enginn vill þar í landi snúa frá þessu hagkvæma frelsi.

Frjáls verzlun með kvóta er leið markaðskerfisins að þeim árangri, að beztu skipin séu notuð og að þar stjórni beztu skipstjórarnir, sem hafi sér við hlið beztu áhafnirnar og hafi beztu útgerðarstjórana sér til halds og trausts í landi. Þetta getur orðið raunveruleiki hér.

Komu Nýsjálendinga til Íslands á ráðstefnu um kvóta fylgir hressilegur gustur, sem feykir burt mollunni, sem gufað hefur upp af skrifborðum mæðulegra skömmtunarstjóra í sjávarútvegsráðuneyti og í skrifstofum hagsmunaaðila og lagzt yfir íslenzkan sjávarútveg.

Leggja þarf niður samráðin í kjaftaklúbbum sjávarútvegsráðherrans og gefa kvótann frjálsan, svo að menn fái loksins frið til að ganga til arðbærra verka sinna.

Jónas Kristjánsson

DV