Um allan heim byggja ágjarnir verktakar slömm, húsarústir fyrir fátæklinga, oftast í samráði við spillta borgarstjórn. Séríslenzka útgáfan af þessu framtaki eru blokkirnar við Skúlagötu, sem flísarnar hrundu af. Munurinn er sá, að í Reykjavík var ríkisfólk gabbað til að kaupa íbúðir í slömminu á tvöföldu eða þreföldu verði. Eins og annars staðar eru nýsmíðaðar rústir minnisvarði um vonda stjórnsýslu borgarinnar. Nemendur Listaháskólans bentu á þetta í gær með því að fylla í götin á húsunum. Gerningurinn er skondinn dómur yfir verktökum, embættismönnum og pólitíkusum, sem allir eru óhæfir.