Nyting atkvæðakvota

Greinar

Framsókn vann stórkostlegan varnarsigur í síðustu kosningum við erfiðar aðstæður. Með djúpt hugsaðri tilfærslu á ímynd flokksins skilaði markaðssamskiptaherferð hans tilætluðum árangri, auknu fylgi meðal kvenna og yngra fólks, ásamt góðri samningsstöðu og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherrastólnum.”

Svo segir orðrétt í forsendum dómnefndar, sem veitti Framsóknarflokknum Effie-verðlaunin fyrir að takast vel að innheimta vonarfylgi meðal kjósenda í vor. Verðlaunin sýna, að stjórnmálaflokkar eru farnir að ráða sérfræðinga, sem eiga að geta selt kjósendum ímyndir um innihald.

Í nútímanum er ímynd eitt og innihald allt annað, mest fyrir tilverknað sérfræðinga. Bandaríkjamönnum var talin trú um, að George W. Bush hefði samúð með smælingjum og vildi takmarka afskipti af útlöndum. Raunveruleikinn varð síðan þveröfugur. Bretum var talin trú um, að Tony Blair væri allra manna einlægastur, en raunveruleikinn varð þveröfugur.

Þegar tækni ímyndarfræðinga eykst margfalt hraðar en skilningur kjósenda í löndum, sem hafa langa reynslu af lýðræði og fjölmiðlun, er við að búast, að Ísland fylgi í kjölfarið. Effie-verðlaun Framsóknarflokksins eru gott dæmi um, að nútíminn gengur í garð hér á landi sem annars staðar.

Samkvæmt kenningu úr háskólanum, sem byggð er á langvinnum kosningarannsóknum, eru sölumennskunni takmörk sett af svigrúmi hvers stjórnmálaflokks. Þannig hafði Framsóknarflokkurinn í vor svigrúm eða fylgiskvóta upp í 33% og náði ekki nema 18% eða rétt rúmlega helmingnum. Kannski átti flokkurinn bara alls ekki Effie-verðlaunin skilið.

Samkvæmt kenningunni hafði Sjálfstæðisflokkurinn kvóta upp á 41% fylgi og náði 38% eða nánast hverjum haus. Það er frábær árangur. Þess vegna hefði verið nærtækara að verðlauna þann flokk fyrir árangur í innheimtu kvótans.

Dómnefndin hefði mátt veita skammarverðlaun. Þá hefði frammistaða vinstri grænna stungið í augu. 9% innheimta af 22% útistandandi fylgi bendir til, að þar í flokki séu verkefni fyrir ímyndarfræðinga að hætti nútímans. Samfylkingin stóð sig ekki heldur sem skyldi, með 31% innheimtu af 45% fylgiskvóta.

Sá galli er á notkun kenningarinnar um svigrúmið, að það breytist milli kosninga. Að vísu er breytingin í flestum tilvikum lítil, nema hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem svigrúmið milli kosninga lækkaði úr 53% í 41%.

Því er girnilegt og líklega arðbært fyrir sérfróða ímyndarfræðinga að afla ekki bara verðlauna fyrir að hala kvótann inn á síðustu vikum kosningabaráttunnar, heldur afla verðlauna fyrir að víkka svigrúmið og fjölga vonarpeningi milli kosningabarátta, stækka kvótann.

Framtíð sérfræðinga er björt. En tvísýnni er framtíð kjósenda, sem hafa ekki þekkingu til að standast áhlaup hálærðra sérfræðinga.

Jónas Kristjánsson

DV