Garðyrkjustöðin Melar á Flúðum heldur uppteknum hætti. Þar er söluborð úti við veginn að Syðra-Langholti. Við getum valið okkur grænmeti og borgað í bauk. Afgreiðsla er engin. Eitt kíló af tómötum kostaði 250 krónur, risagúrkan 100 krónur og hausinn af kínakáli 300 krónur. Tómatarnir voru með þessu sterka bragði, sem einkennir nýtínda vöru. Mun betri en nokkurra daga gömlu tómatarnir í stórverzlunum höfuðborgarsvæðisins. Neytendur kunna að meta þessa kaupsýslu og hafa greinilega ekki rangt við, þegar kemur að greiðslu. Annars hefði hún tæplega haldið áfram annað sumarið í röð.