Linnulaus útþenslu- og nýlendustefna Rússa er helzta og raunar eina umtalsverða ógnunin við heimsfriðinn. Íhlutun og bylting Rússa í Afganistan er nýjasta og grófasta staðfestingin á þessari ógnun.
Fyrsta aldarfjórðunginn eftir heimsstyrjöldina síðari voru Rússar önnum kafnir við að festa í sessi nýlenduveldi sitt í Austur-Evrópu. Þar hafa hinar hötuðu leppstjórnir þeirra stundum rambað á barmi falls.
Síðustu árin hafa Rússar fært sig upp á skaftið. Hingað til hafa þeir þó látið leppríki sitt á Kúbu um skítverkin. Þeir hafa borgað og útbúið hernaðaríhlutun Kúbumanna í Angóla, Eþiópíu og Jemen.
Þessi gríma er fallin í Afganistan. Þar er Rauði herinn sjálfur beinlínis kominn í eldlínu nýrra landvinninga. Markmiðið er að festa þar í sessi leppstjórn, sem Rússar komu þar á fót í byltingu, sem þeir framkvæmdu sjálfir.
Þetta er köld vatnsgusa framan í þá nytsömu sakleysingja, sem hafa trúað því, að Rússar hefðu ekki áhuga á frekari útþenslu, vildu friðsamlega sambúð austurs og vesturs, stöðvun vígbúnaðarkapphlaups og gagnkvæman samdrátt herafla.
Salt-samkomulagið er af hálfu Rússa ekkert annað en styrjöld með öðrum aðferðum en hinum venjulegu til bráðabirgða. Slíkir samningar við Vesturlönd eru hugsaðir sem svefnþorn, sem ræktun nytsams sakleysis í vestri.
Rússar hafa ekki haft árangur sem erfiði í Vestur-Evrópu. Atlantshafsbandalagið er þar enn fast fyrir, þótt alþýðubandalagsmenn og Evrópukommúnistar allra landa reyni stöðugt að grafa undan því.
Rússar hafa ekki heldur haft árangur sem erfiði á austurlandamærunum. Þar hafa Kínverjar brotizt undan veldi þeirra og stöðvað útþensluna til austurs. Jafnframt eykst þar samstarf Kínverja og Japana með hverju árinu.
Vegna þessa hefur nýlendustefna Rússa einkum beinzt til suðurs, þar sem fyrirstaða er minni. Þeir hafa komið sér upp leppstjórn í Vietnam með hinu venjulega, stalínska grimmdarsniði. Og þeir hafa komið sér upp slíkri stjórn í Afganistan.
Atlantshafsbandalagið og Kína hafa komið í veg fyrir aðgang Rússa að hentugum og íslausum flotahöfnum við Atlantshaf og Kyrrahaf. En Rússar hyggjast koma sér upp slíkum höfnum við lndlandshaf, þar sem fyrirstaðan er minni.
Eftir töku Afganistan eiga Rússar aðeins eftir eitt skref að lndlandshafi. Þrýstingur þeirra mun þá sennilega einkum beinast að Íran, því að þar er ruglingsstjórn Khomeinis völt í sessi og íranskir kommúnistar bíða átekta.
Í kjölfar hernaðar Rússa í Afganistan eigum við nú að láta af nytsömu sakleysi. Við eigum að endurvekja þrótt Atlantshafsbandalagsins. Og við eigum að efla sem mest hernaðarsamráð og önnur samskipti við Kínverja.
Við eigum að draga úr þeirri virðingu, sem við sýnum Rússum í margvíslegum samskiptum. Alþjóðlega ólympíunefndin gerði mikil mistök, þegar hún leyfði ólympíuleika í Berlín árið 1936. Hún hefur endurtekið þau mistök núna.
Í augum valdshyggjumanna eru friðsamleg samskipti af slíku tagi aðeins biðleikir í hernaðarskákinni. Og ólympíuleikarnir í Moskvu hafa að bakgrunni þá takmarkalausu og tilfinningalausu kúgun, sem veldi Rússa byggist á.
Fyrir alla muni skulum við láta Afganistan okkur að kenningu verða. Við skulum sjá linnulausa útþenslu- og nýlendustefnu Rússa í réttu ljósi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið