Samkvæmt alþjóðalögum er hernámsríki óheimilt að reka íbúa af hernumdum svæðum og ennfremur er því óheimilt að nema land á slíkum svæðum. Á hernumdum svæðum Palestínu hefur Ísraelsríki brotið báðar þessar lagagreinar, síðari lagagreinina mjög gróflega.
Æskilegt er, að þessi staðreynd verði í sviðsljósi í tengslum við friðarráðstefnu Miðausturlanda, sem Bandaríkin hafa með stuðningi Sovétríkja boðað til í Madrid á Spáni. Einnig er mikilvægt, að tækifærið verði notað til að minna á hryðjuverk Ísraels í Palestínu.
Framferði Ísraelsríkis á hernumdum svæðum Palestínu má ekki verða að fordæmi annars staðar, þar sem hliðstæð vandamál geta magnazt vegna þjóðernis- eða trúardeilna, svo sem á þeim svæðum, sem við höfum lengi þekkt undir nöfnunum Sovétríkin og Júgóslavía.
Rússneskir og serbneskir yfirgangsmenn fylgjast vel með gangi mála. Ráðamenn í Rússlandi hafa gert tilkall til landsvæða í öðrum löndum, þar sem Rússar búa, svo sem í Úkraínu. Vegna hneykslunar að vestan hefur þessi krafa verið látin niður falla að sinni.
Serbía hefur komizt upp með að reyna landvinninga í Króatíu, á þeim forsendum, að þar búi mikið af Serbum. Ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að benda Serbum á, að þeir komist ekki upp með þetta, en Serbíuforseti og sambandsher Júgóslavíu ekki viljað trúa.
Stefna Serbíuforseta og Júgóslavíuhers er að hrekja Króata burt af hernumdu svæðunum, svo að þar séu Serbar einir eftir. Ætlunin er að neyða Vestur-Evrópu til að sætta sig við orðinn hlut, þegar setzt verður í alvöru við samningaborð að loknum landvinningum.
Meðal ríkja heims er mikil andstaða við tilraunir af þessu tagi til að breyta landamærum, hvort sem það eru ytri landamæri eða innri landamæri í ríkjasambandi. Sem dæmi má nefna, að ríkjum Rómönsku Ameríku hefur að mestu tekizt að útrýma landamæraerjum.
Þótt Afríka hafi lengi verið eitt mesta ófriðarbæli heims, hefur verið þar nokkuð góð samstaða um, að landamæri séu heilög. Undantekningar á því hafa verið fáar og ekki náð fram að ganga. Dæmi um það er misheppnuð tilraun Líbýu til þenjast til suðurs.
Ísraelsríki hefur tekizt að nema land á hernumdum svæðum í Palestínu í skjóli Bandaríkjanna, þrátt fyrir alþjóðalög og alþjóðahefðir. Þetta hefur stuðlað að réttmætri einangrun ríkisins á alþjóðavettvangi og valdið Bandaríkjunum erfiðleikum í vestrænni samvinnu.
Um langt skeið hafa Bandaríkin haldið Ísraelsríki fjárhagslega á floti. Þau hafa líka að meira eða minna leyti kostað flutning fólks frá Sovétríkjunum til Ísraels. Þessir fjármunir hafa að hluta, beint og óbeint, verið notaðir til ísraelsks landnáms á hernumdu svæðunum.
Palestínumenn eiga undir högg að sækja vegna stuðnings þeirra við Saddam Hussein Íraksforseta. Þeir verða látnir gjalda þess á friðarfundunum í Madrid, þar sem yfirvöld í mörgum arabaríkjum eru meira á móti stjórn Saddams Hussein en þau eru á móti stjórninni í Ísrael.
Þess vegna eru horfur á, að alþjóðalög og alþjóðahefðir nái ekki fram að ganga á fundunum í Madrid. Það mun draga úr gildi slíkra laga og hefða og hafa slæm áhrif á alla þá sem áhuga hafa á að beita hryðjuverkum og ofbeldi til útþenslu í stíl Ísraels í Palestínu.
Bandaríkin, betlandi Sovétríki, Ísrael og örfá ólýðræðisleg arabaríki eru ekki réttir aðilar til að rjúfa lög og staðfesta árangur af yfirgangi Ísraels í Palestínu.
Jónas Kristjánsson
DV