****0
Salt
Pipar-og-salt litur
Nýtt matargerðarmusteri er komið til skjalanna. Til viðbótar við Grillið, Humarhúsið og Sjávarkjallarann er komið Salt á hóteli 1919 í gömlu Eimskipafélagshöllinni í Pósthússtræti. Aðalsmerki staðarins er matreiðslan er ekki bundin í viðjar Bocuse, heldur leggur meiri áherzlu á eðlisbragð hráefna.
50 sæta matsalurinn er hægra megin við Pósthúsinngang hótelsins. Hann er grár, mest í salt-og-pipar gráu, stólar, borð, skyrtur þjóna. Veggir eru ljósgráir með speglum og létt gluggatjöld eru daufbrún. Þetta er einn naumhyggjustaða nútímans, ber með sér varfærið yfirbragð brezkra séntilmanna úr City.
Kitlað við bragðlauka
Ragnar Ómarsson er einn af stjörnukokkum landsins. Réttir hans voru samfelld ánægja bragðlaukanna. Fyrst kom létt og gott lax- og mangó-tartar smásaxað. Forréttir voru enn betri, óvenjulega meyr hörpuskel og kræklingur, kryddað með sítrónublandaðri fenniku, hvítlauk og basil. Sjávarréttasúpa var froðukennd og bragðsterk með hörpuskel og kræklingi til hliðar.
Annar aðalrétturinn var kryddgljáður hlýri blandaður skelfiski, saffran, ertum og pasta, sem líkist hrísgrjónum og er kallað orzo. Hinn aðalrétturinn var salt- og sítrónubakaður lambahryggvöðvi, skorinn í teninga, hæfilega eldaður, borinn fram með kartöflustöppu og rosalega góðu brisi.
Eftirréttir slakari
Forréttir og aðalréttir voru spennandi á matseðlinum og gáfu fullt hús stiga. Minni tilþrif voru í eftirréttum: Panna Cotta búðingur blandaður kókoshnetum, borinn fram með of bragðsterkri kirsuberja-ísfroðu, og Crema Catalana búðingur með engifer og stökkri karamelluskorpu, borinn fram með hefðbundnum núgatís.
Það kostar 6.400 krónur að borða þríréttað á Salti, fyrir utan vín og kaffi. Sæmilegt úrval vína var selt í glasavís. Þjónusta er í góðu samræmi við verðlag og metnað staðarins. Vatnsglösin voru úr stíl, sennilega óbrjótanleg, góð fyrir kaffi í sveitinni. Diskar voru ferkantaðir og hálfmattir glerdiskar.
Fjögurra stjörnu staður
Salt fær fjórar stjörnur og 16 stig af 20 mögulegum, sama og Humarhúsið og Sjávarkjallarinn, einu stigi minna en Grillið.
DV