Nýtt raunsæi.

Greinar

Svavar Gestsson mun fá kaldar kveðjur í stjórnarmyndunarviðræðunum, ef hann ýtir á flot hugmyndum um endurskoðun svokallaðs “varnarsamnings” við Bandaríkin. Viðhorf Íslendinga til umheimsins hafa breytzt á fáum vikum.

Til skamms tíma var andstaða Alþýðubandalagsins við herstöðina í Keflavík og Atlantshafsbandalagið viðurkennd sérvizka minnihlutahóps. Menn voru reiðubúnir að ræða þetta áhugamál 20% þjóðarinnar eins og önnur vandamál.

Að vísu var aldrei nein hætta á, að Alþýðubandalagið næði árangri á þessu sviði. Þingmenn þess hafa líka verið fljótir að viðurkenna minnihlutastöðuna og samþykkja stjórnaraðild án endurskoðunar Keflavíkursamninga.

Fyrir nokkrum vikum hefðu menn hlustað af kurteisi á Svavar Gestsson og síðan beint orðum sínum að verðbólgunni og öðrum nærtækum vandamálum. Þeir hefðu ekki talið Svavar neitt verri fyrir að impra á nauðungarhugsun Alþýðubandalagsins.

Núna yrði slík þjónusta Svavars við hagsmuni Sovétríkjanna talinn dónaskapur. Samningamenn hinna flokkanna mundu hreinlega ganga út í fússi, ef Svavar færi að tala um nauðsyn á endurskoðun svokallaðs “varnarsamnings”.

Aðfarir Rússa í Afganistan hafa nefnilega opnað augu Íslendinga eins og annarra Vesturlandabúa fyrir því, að eftirgjafastefnan gagnvart heimsvaldastefnu nýlenduveldisins var út í hött. Hún beið skipbrot í Afganistan.

Við höfum nú öll áttað okkur á, að Rússland stefnir að heimsyfirráðum og mun ekki síður gera það í náinni framtíð, þótt nýr keisari taki við af Brezhnev. Við vitum, að heimsvaldastefnan er grunnmúruð í Moskvu.

Við horfum á ártölin. Ungverjaland árið 1956, Tékkóslóvakía árið 1968 og Afganistan árið 1979. Með þremur fantabrögðum hafa Sovétríkin eytt hverjum snefli af samúð nytsamra sakleysingja á Vesturlöngum.

Afganistan er þó sýnu verst þessara mála. Í hinum tveimur tilvikunum gátu Moskvumenn vísað til þegjandi samkomulags við misvitra stjórnmálamenn á vesturlöndum um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði austurs og vesturs.

Afganistan staðfestir hins vegar þá stefnu Sovétríkjanna, að þau geti komið til skjalanna hvar sem er í heiminum, ef þjóðir rísa upp gegn leppstjórnum þeirra. Afganistan staðfestir raunverulegt innihald Brezhnev-kenningarinnar.

Handan áhrifasviðs keisaranna í Moskvu geta menn ákveðið í kosningum, hvort þeir vilja kapítalisma, kommúnisma eða eitthvað annað. Hafi aftur á móti kommúnismi komizt til valda einhvers staðar, í byltingu eða á annan hátt, verður ekki aftur snúið, að mati Brezhnevs.

Hér á Vesturlöndum viljum við halda áfram að velja þá stjórnmálamenn, sem við eigum skilið. Við viljum, að Svavar Gestsson reyni stjórnarmyndun í dag. Við viljum kannski, að Geir Hallgrímsson reyni stjórnarmyndun eftir næstu kosningar.

Eftir Afganistan vitum við, að þessi lífsstíll á Vesturlöndum er í hættu . Við vitum, að valdasjúklingarnir í Moskvu hafa ekki sett sér nein takmörk. Annað veifið tala þeir um frið, en hitt veifið ráðast þeir á lægsta garðinn.

Nú er úr sögunni öll óskhyggja um, að Brezhnev Rússakeisari meini nokkuð með viðræðum um gagnkvæman samdrátt herafla og friðsamlega sambúð í heiminum. Þetta nýja raunsæi mun verða okkur að leiðarljósi næsta áratuginn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið