Tilveran breytist ekkert. Fiskréttir veitingahússins í Hafnarfirði eru alltaf hæfilega og nærfærnislega eldaðir. Gott dæmi um það er rauðspretta, sem þolir ekki ofeldun. Svo er þetta ódýr staður, 2.400 krónur fiskréttur og 3.100 krónur með súpu með ís og kaffi til viðbótar. Það er náttúrlega vont að ferðast á heimsenda til að ná í góðan fisk. Samt geri ég það stundum, því að tæpast fer ég aleinn á Þrjá frakka. Þetta er þægilegur staður með óvenjulega þykkum pappírsþurrkum og öldruðum myndum á vegg. En kaffið á Tilverunni er því miður lapþunnt american, sér í botn með mjólk í.