Óbreytt stjórnarfar

Greinar

Nýja ríkisstjórnin ætlar greinilega að feta í spor síðustu ríkisstjórnar. Hvorki í málefnasamningi nýju ríkisstjórnarinnar né í yfirlýsingum ráðherra hennar má finna neitt, sem bendir til markverðra frávika frá því stjórnarfari, sem hér hefur verið á undanförnum árum.

Þjóðarsátt á vinnumarkaði, kvótakerfi í sjávarútvegi, búvörusamningar í landbúnaði og andstaða við aðild að Evrópubandalaginu voru þau meginatriði í stefnu síðustu ríkisstjórnar, sem helzt gátu talizt umdeilanleg. Á öllum þessum sviðum verður stefnan óbreytt.

Segja má, að vaxtastefna hinnar nýju ríkisstjórnar sé nær hefðbundinni hagfræði. Hafa verður þó í huga, að tregða síðustu ríkisstjórnar við að halda jafnvægi í vöxtum byggðist fyrst og fremst á ótta við, að hækkun vaxta hefði slæm áhrif á kjósendur í kosningunum.

Nú eru kosningarnar að baki, kjósendur farnir heim og aftur kominn grundvöllur fyrir heilbrigðri vaxtastefnu. Efast má um, að gamla stjórnin hefði haldið áfram að tefja vaxtahækkun, ef hún væri nú við völd og stæði andspænis hruni á sölu ríkisvíxla.

Á undanförnum misserum hefur ríkisvaldið talið sig þurfa stóraukið lánsfé. Þessi þrýstingur á lánamarkað hlýtur að leiða til hækkunar vaxta, þótt síðasta ríkisstjórn hafi neitað að horfast í augu við þá afleiðingu gerða sinna, af hefðbundnum ótta við kjósendur.

Í Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki er mikil andstaða við búvörusamning í landbúnaði og kvótakerfi í sjávarútvegi. Þessarar andstöðu sér engin merki í fyrstu sporum hinnar nýju ríkisstjórnar. Þvert á móti eru öll teikn á lofti um óbreytta og úrelta stefnu í þeim efnum.

Sjávarútvegsráðherra hinnar nýju ríkisstjórnar hefur sérstaklega tekið fram, að kvótakerfið verði óbreytt að sinni, þótt fræðimenn hafi stutt góðum rökum, að umtalsverðra breytinga sé þörf. Og eignarhaldi útgerðarmanna á auðlind þjóðarinnar verður ekki haggað.

Landbúnaðarráðherra nýju stjórnarinnar var í stjórnarandstöðu þekktur að yfirboðum í fjárheimtum hins hefðbundna landbúnaðar á hendur skattgreiðendum og neytendum. Erfitt er að sjá, að hann muni raska hinni sjálfvirku verðmætabrennslu í landbúnaði.

Vera kann, að nýja ríkisstjórnin setji skorður við fjármálasukki, sem tíðkaðist á síðari hluta ferils fráfarandi fjármálaráðherra. En það eru embættismenn í fjármálaráðuneyti, en ekki nýju ráðherrarnir, sem hafa lagt til, að settar verði skorður við óhóflegri seðlaprentun.

Ekkert bendir til, að nýja stjórnin hyggist takast á við losaralegar starfsreglur, sem gerðu fráfarandi dómsmálaráðherra kleift að setja Íslandsmet í spillingu. Hún ætlar ekki heldur að setja reglur um að skilja á milli ferða- og risnukostnaðar ríkis, flokka og einstaklinga.

Nýja ríkisstjórnin minnir um fæst á fyrri Viðreisnarstjórn þessara sömu flokka. Sú stjórn keyrði í gegn merkustu umbætur hagsögunnar, en nýja stjórnin hyggst breyta sem fæstu. Hún minnir meira á helmingaskiptastjórnir Sjálfsstæðis- og Framsóknarflokks.

Ríkisstjórnin er fyrst og fremst hagkvæmnishjónaband. Steingrímur Hermannsson hefði aðeins getað boðið Alþýðuflokknum þrjú ráðherrasæti í fjögurra flokka vinstri stjórn. Davíð Oddsson gat hins vegar boðið honum fimm ráðherrasæti. Þetta er kjarni málsins.

Efnislega skiptir litlu, hvaða flokkar eru við stjórn. Þeir eru nokkurn veginn alveg eins. Ráðherraefnin eru hins vegar önnur og um það snúast íslenzk stjórnmál.

Jónas Kristjánsson

DV