Óðinsvé

Veitingar

Matreiðslan getur bilað

Óðinsvé eru sannkallaður öndvegisstaður. Þau eru einn af notalegustu veitingasölum landsins og búa í sal yfir starfsliði, sem bæði er elskulegt og kann betur til verka en við höfum séð víðast annars staðar. Þar á ofan er verðlag staðarins neðan við meðallag. Ekkert vantar raunar upp á fullkomnunina, nema bara matreiðsluna, sem oftast er mjög góð eða bara góð, en getur þó bilað stundum.

Í hádegi fékk ég kálfakjöt, sem var fallega rósrautt að innan og bragðgott eftir því, með hæfilega léttsoðnu grænmeti í kring, en ekki lerkisveppunum, sem boðaðir voru. Réttinum var svo spillt af samkeppni hveitisósu og bráðins smjörs, sem yfirgnæfðu diskinn og runnu saman í fjölbreytilega leðju. Og að kvöldi var þykkur og girnilegur nautahryggvöðvi, að vísu með góðri og hveitilausri rjómapiparsósu, grænmeti og bakaðri kartöflu, en þó rétt sæmilegur matur, af því að kjötið var of seigt.

Rjómalöguð blaðlaukssúpa var til fyrirmyndar öðrum slíkum súpum. Gæsakæfa var gróf, en samt mjúk og mild á bragðið, borin fram með bláberjasósu og trönuberjum, en boðað kiwi gleymdist. Kjúklingakæfa var líka mjúk og mild, en fínlegri að sjá, í fylgd með trönuberjum og sýrðum graslauksrjóma. Báðar kæfurnar voru afar góðar.

Andalifur var hins vegar ekkert sérstakur forréttur, sem fólst aðallega í linum skógarsveppum og góðri rauðvínssósu, en minna í litlu magni af góðri andalifur, er var á þunnri, stökkri og góðri smjördeigsköku, svo og títtnefndum trönuberjum, sem greinilega voru í hátízku eða of miklu upplagi á staðnum.

Frábærir fiskréttir

Fiskréttir reyndust allir vel og sumir frábærlega vel. Smjörsteikt lúðukótiletta var ótrúlega létt elduð og meyr, borin fram með rækjum og ostasósu. Smjörsteikt rauðspretta með allt of fjölbreyttu meðlæti var ekki minna nærfærnislega elduð og eftir því góð. Gufusoðið karfaflak féll í skugga þessara tveggja fiskrétta, en var eigi að síður gott, hvítlaukskryddað og sérkennilega fram sett með afar góðri rauðvínssósu brúnni.

Léttsteiktur lambageiri var meyr og góður, en dálítið yfirkeyrður af kryddi, borinn fram með hæfilega léttsoðnu grænmeti og þungsteiktum sveppum, en ekki bökuðu kartöflunni, sem boðuð var. Með hliðsjón af því, sem áður hefur verið sagt hér um nauta- og kálfarétti staðarins, mætti ætla, að kjöt væri veikari hlekkur en fiskur í matreiðslunni.

Allir réttir, sem hér hafa verið nefndir, voru boðnir á töflu, sem komið var fyrir á trönum, er bornar voru milli borða. Komið hefur fram hér að framan, að ósamræmi var stundum milli hinna tiltölulega löngu, handskrifuðu lýsinga á réttunum á töflunni og á raunveruleikanum, sem kom á borðið. Þetta er einkennilegt, því að tæpast er ástæða til langra lýsinga, ef ekki er ætlunin að taka neitt mark á þeim.

Réttirnir, sem sagt var frá á töflunni, voru yfirleitt á lægra verðlagi en réttirnir á fastaseðlinum og til í nógu úrvali, svo að gestir þurfa ekki að fletta seðlinum fyrr en kemur að eftirréttum. Djöflaterta reyndist sæmilega, en heit eplakaka var sérkennileg, eins konar rúlluterta, sem fól í sér meira af rúsínum en eplum og hafði í för með sér ískúlu og þeyttan rjóma.

Annars er fasti matseðillinn athyglisverður fyrir þá sök, að þar er sérstaklega mælt með hvalkjöti, pönnusteiktri langreyði í rauðvínssósu og Madeira, og vegna þess að þar er boðin matarveizla eftir höfði kokksins, það er að segja röð leyndardómsfullra rétta. Hún er afgreidd fyrir minnst fjóra og kostar 2.450 krónur á mann. Slíkar veizlur tíðkast víða í frönskum veitingahúsum, en ég hef ekki prófað veizluna í Óðinsvéum.

Fyrirmyndar vínlisti

Enn merkilegri er raunar vínlistinn. Hann nær yfir flest hið bezta, sem fáanlegt er borðvína í Ríkinu, þar á meðal vín, sem sjaldséð eru í veitingasölum, svo sem Siglo, Riserva Ducale og Saint Emilion Luze. Til viðbótar er svo langur listi vína, sem sérstaklega eru flutt inn fyrir Óðinsvé og eru hvergi annars staðar fáanleg. Þeim lista, sem og venjulega listanum, fylgja lærdómsríkar útlistanir á eðli og eiginleikum vínanna.

Þetta eru um tuttugu vín, öll frá Bordeaux. Flest eru þau lítt þekkt og sumpart frá afskekktum héruðum. Sum eru til dæmis frá svæðinu milli fljótanna Garonne og Dordogne, sem fáir vínþekkjendur kunna til hlítar. Nokkur eru nær óþekkt vín frá Graves. Verðlagið er frá 1.180 krónum upp í 1.760 krónur fyrir flöskuna af flestum þessara vína.

Svo eru líka á boðstólum dýrari Bordeaux-vín. Hæst ber þar Chateau Léoville-Poyferré frá St.-Julien af hinum góða árgangi 1979 á 4.593 krónur. Ennfremur Chateau Lagrange frá St.-Julien af hinum enn betri árgangi 1978 og loks Chateau Duhart-Milon frá Pauillac af hinum heldur lakari árgangi 1980. Betri kaup kunna að vera í hinu vanmetna Chateau Troplong-Mondot frá St.-Emilion af árganginum 1979 á 2.960 krónur.

Ljúfleg og fagleg

Starfsliðið í Óðinsvéum var svo þægilegt, að viðbrigðin við að koma úr hádegisverði í Sjanghæ í kvöldverð í Óðinsvéum var eins og að koma úr hreinsunareldinum í himnaríki. Þjónustan í Óðinsvéum reyndist ekki aðeins ljúfmannleg, heldur einnig fagmannleg. Sex gestir við sama borð fengu hver sinn rétt, án þess að þjónustuliðið þyrfti að spyrja, hver hefði pantað hvað. Slíkt er sjaldgæft hér á landi, jafnvel á dýrustu stöðum.

Óðinsvé eru notaleg, einkum meginsalurinn. Garðstofan er hins vegar kuldaleg marga daga ársins. Hún er líka löng og mjó og þéttskipuð ljósleitum límviðarborðum og eins konar garðstólum. Þar eru viftur í lofti og steinflísar á gólfi.

Í aðalsalnum eru naktar perur og reitaskreyting í lofti, riffluð súla með speglum á miðju gólfi, málverk, speglar og smámyndir á ljósum veggjum, mikið af pottblómum í gluggum og teppi á gólfi. Til hótelanddyris sést gegnum vínskápinn. Gestir sitja í vönduðum, dökkbrúnum armstólum við samlit og gljáandi viðarborð. Á borðum voru plattar, afskorin blóm og vandaður borðbúnaður, tauþurrkur á kvöldin og úr pappír í hádeginu. Í kjallara er fordrykkja- og kaffistofa í sama stíl.

Þriggja rétta máltíð með kaffi, valin af seðli dagsins, sem býður fullnægjandi úrval, kostar að meðaltali 1.555 krónur að kvöldi og 1.387 krónur í hádegi. Það er tiltölulega lágt verð miðað við gæði. Val af fastaseðli kostar heldur meira, 1.809 krónur.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður matseðill

210 Rjómalöguð blaðlaukssúpa
480 Gæsakæfa með ávaxtasósu, kiwi og ristuðu brauði
480 Kjúklingakæfa með rjómasoðnum graslauk
420 Steikt andalifur með skógarsveppum og vínsósu
620 Gufusoðið karfaflak með lauk og lerkisveppum
650 Smjörsteikt rauðspretta með ristuðum banana
690 Smjörsteikt lúðukótiletta með rækjum og ostasósu
890 Léttsteiktur lambageiri með Café-de-Paris-sósu
1090 Nautalundir með rjómapiparsósu og bakaðri kartöflu
780 Snitzel Cordon bleu, fyllt með osti og skinku
350 Ferskt ávaxtasalat með eggjasósu og þeyttum rjóma

DV