Óðinsvé

Veitingar

Óðinsvé hafa jafnan verið nokkuð gott veitingahús, nokkurn veginn jafnt frá ári til árs, með höfuðáherzlu á matreiðslunni, svo sem vera ber. Þótt staðir eins og Óðinsvé séu sjaldan á hátindi matargerðarlistar, skiptir ekki minna máli, að gæðin eru jöfn og traust. Menn verða ekki fyrir vonbrigðum á þessum fagmennskulega stað.

Þetta er fremur dýrt veitingahús samkvæmt reiknikerfi mínu. Miða ég þá við matseðil dagsins, en ekki fastaseðilinn, sem er dýrari. Á matseðli dagsins er töluvert úrval, svo að ekki er nauðsynlegt að taka fastaseðilinn með í reikninginn, enda er honum ekki haldið að fólki.

Matseðill dagsins er á eftirlíkingu af málaratrönum, sem bornar eru að borði gesta, þegar þeir þurfa að ákveða sig. Einstakir réttir eru á skráðir á litaða miða, sem eiga að líka eftir litaklessum á málaraspjaldi. Þetta er gott og blessað og hefur lengi tíðkazt í Óðinsvéum.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 2.120 krónur í hádegi og 2.940 krónur að kvöldi. Verð forrétta og eftirrétta er eins að kvöldi og í hádegi, en verð aðalrétta er breytilegt eftir þessum matmálstímum.

Frá heimilismat
yfir í nýfranskt

Á matseðli dagsins hef ég séð valinkunna heimilisrétti á borð við soðna hvítkálsböggla, fiskibollur “að hætti ömmu” og bixímat, innan um nýfranskari rétti á borð við gufuskoðin skötubörð, hrátt hangikjöt og kampavínssoðnar rauðspretturúllur. Þetta er ágætis fjölbreytni, sem hefur eitthvað fyrir flestan smekk.

Ég prófaði skartlega uppsetta villigæsakæfu með hvannarblöðum, frábæran rétt, hæfilega milt kryddaðan, svo að gæsabragðið naut sín vel. Hrátt hangikjöt með piparrótarrjóma,, melónu og ristuðu brauði, var líka góður og fallega fram borinn réttur.

Appelsínuleginn silungur var fínlega leginn, borinn fram á salati, sem var blandað appelsínubarkarbitum. Enn einn forrétturinn, sem ég prófaði, voru blandaðir sjávarréttir, sem reyndust aðallega vera hörpufiskur og rækja, borið fram í smjördeigsbollum og með fínlegri skeljasósu.

Það er einkenni margra góðra veitingastaða hér á landi, að þeir ná sér bezt á strik í forréttum. Einkum á þetta við um þá staði, sem hafa að einhverju leyti tileinkað sér nýfranska matargerðarlist. Það lánast betur og fyrr í forréttum og eftirréttum en í aðalréttum. Óðinsvé er engin undantekning að þessu leyti.

Gellur og
tindabikkja

Pönnusteiktar gellur í graslaukssósu, bornar fram með hvítlauksbrauði og legnu rauðkáli, voru nokkuð góðar, en að mínum smekk full slepjulegar í samanburði við gellur, sem sumir veitingastaðir bjóða vel legnar.

Skötubörð, sem oft nefnast tindabikkja, voru gufusoðin, borin fram með hvítvínssósu, vínberjum, hvítlauksbrauði og skelfiski, fremur ljúf á bragðið, en með dálítið yfirgnæfandi vínberjabragði. Meðlæti var lítið, að nýfrönskum hætti.

Léttsoðin ýsa var mjög góð, borin fram með örfínt hituðu grænmeti, nánast ósoðnu að nýfrönskum hætti, rækjum og hlutlausri rjómasósu. Þetta var bezti aðalrétturinn, þótt auðvitað verði líka að líta á tilbreytnina, sem felst í gellum og tindabikkju.

Piparsteik var meyr og góð, borin fram með óhóflega bragðþungri koníakssósu.

Svartfuglsbringur með títuberjum, brúnuðum kartöflum og eplasalati, voru of mikið gegnsteiktar, en eigi að síður fremur góðar og ekki mjög seigar. Þetta var ekki öll bringan, heldur þunna stykkið innst við bringubeinið. Það er mjög gott hráefni, en þolir litla sem enga eldun.

Skrautlegir
blómadiskar

Eftirréttir Óðinsvéa voru fagurlega færðir upp á skrautlega og víðáttumikla blómadiska. Spilað var með liti, svo sem grænt kiwi, rauð jarðarber, gulan annas, blá bláber og svo framvegis. Meðal slíkra rétta var góð djöflaterta með ís og rjóma. Einnig súkkulaðihúðuð terta, sem kallast “eftirlæti pípanóleikarins” af því að hún er eins og píanó í laginu, borin fram með skrautlegum ávöxtum.

Bezti eftirrétturinn var ostakaka með rifsberjahlaupi, þeyttum rjóma og áðurnefndum ávöxtum skrautlegum. Hún var hin fínlegasta og léttasta, sem ég hef fengið hér í veitingahúsið, með mildu sítrónubragði.

Einnig er boðið upp á þriggja eða fimm rétta sælkeraseðil, sem fer eftir aðstæðum hverju sinni í eldhúsi. Ég fékk afar góða hörpufiskjarsúpu karríkryddaða, borna fram með hrísgrjónum. Síðan tvenns konar lundir, svína- og lambalundir, fremur hversdagslegar, einkum svínalundirnar, með hlutlausri sósu og osthúðuðum kartöflum. Síðat komu flottar smákökur og ferskur ananas í súkkulaðiturni með ís og súkkulaðisósu til hliðar.

Kaffi er gott og þar á ofan er komin espresso-kaffivél á staðinn. Stundum er konfekt með kaffinu og oftast síðan sætindi við útidyr. Vínlistinn er ekki sérlega merkilegur, en nothæfur. Þar eru hvítvínin Riesling Hugel, Gewurztraminer og Chateau de Cléray, og rauðvínin Hardy Collection, Riserva Ducale, Barolo og Chateau Barthez de Luze.

Þægilegur
matstaður

Þjónusta og umhyggja er nokkuð góð, með undantekningum þó. Smjör kemur í sérstökum skálum og vatn er borið fólki eftir þörfum. Þurrkur eru úr taui í hádegi sem að kvöldi.

Helzt má kvarta yfir, að í tvö skipti af fjórum kom fyrir, að starfsfólk væri svo upptekið hvert af öðru, eldhúsinu og fólki með erindisrekstur þar, að illkleift reyndist að ná auga þess. Í önnur skipti var allt í faglegu og fullkomnu lagi.

Óðinsvé eru lítill salur með stærri garðstofu, langri og mjórri, sem snýr að Óðinsgötu. Gestir sitja í óvenju þægilegum armstólum við vönduð tréborð. Innréttingar eru fremur notalegar í innri sal og fremur kuldalegar í garðstofunni. Mikill fjöldi pottablóma bætir þar mjög úr skák.

Þetta er þægilegur staður, sem ég get alltaf hugsað mér að heimsækja og verið viss um, að engum verður borinn matur, sem ekki er sómasamlegur. Og bezt er að halla sér sem mest að forréttum og eftirréttum í Óðinsvéum, því að þeir virðast jafnan vera í toppformi.

Jónas Kristjánsson

DV