Óðinsvé

Veitingar

Óðinsvé hafa færzt upp virðingarstiga veitingahúsa borgarinnar. Einkum er það matreiðsla og aðbúnaður gesta, sem hafa tekið framförum í þessum hótelsal, en verð hefur líka hækkað, en ekki alveg að sama skapi.

Þar að auki hefur hádegisverðlagið setið eftir, svo að óvenjulega góð kaup eru nú í hádeginu. Þá fá gestir sams konar matreiðslu, sömu þjónustu, sams konar tauþurrkur og borðdúka og á kvöldin, en borga ekki nema 950 krónur fyrir súpu og nokkuð úrval af aðalréttum.

Á kvöldin er meðalverðið 3105 krónur, auk þess sem þá eru boðnar sælkeramáltíðir, þríréttuð á 2690 krónur og fimmréttuð á 3490 krónur. Þetta eru háar tölur, sem gefa Holti ekki eftir, en eru þó ekki þær hæstu, sem sjást í veitingasölum, þar sem tróna Perlan og Grillið og, furðulegt nokk, einnig Óperan, Mávurinn og Skólabrú.

Innréttingar hafa verið óbreyttar í tæpan áratug. Þær eru óslitnar, en hafa gamalt yfirbragð, eru í fúnkis-stíl, sem minnir á framúrstefnu-matstaði millistríðsáranna. Speglaverk á eldhúsvegg, flókinn og mikill skenkur, svo og rifflar á súlum og skenk minna á hina gömlu tíma.

Salurinn skiptist í hefðbundinn hluta með bláum dúkum og garðhús með bleikum dúkum. Málverk eftir Hring Jóhannesson eru á veggjum og þau eru ekki í fúnkis, né heldur kassavélin, sem hvílir í hásæti á skenknum og dregur niður stílinn, þótt hún sé ekki hávær.

Í hádegi og að kvöldi var borið fram tvenns konar brauð með súpunni, hvítar og grófar bollur, volgar og góðar, sérstakar í bragði, en ekki með smjöri. Kjötseyði var afar gott, með eggjarauðu, sem mildaði bragðið, og portvíni í sérstöku staupi, svo að gestir gátu blandað að vild.

Einiberjagrafinn lax með sólseljusósu og ristuðu brauði var mjög góður, betri en hefðbundinn sólseljugrafinn lax. Tónar hafsins voru skemmtilegur og fallega settur forréttur, sem fól í sér dálítið þétta fiskikæfu, mjög góðan reyktan fisk, góðan reyktan lax og appelsínuleginn silung; hvern tón hafsins með sinni eigin sósu.

Bleikja að hætti Doria var einstaklega hæfilega lítið elduð með skemmtilega snarpgrilluðu roði, borin fram með sítrónum og sterksýrðum gúrkum heimagerðum, sem yfirgnæfðu í bragði, svo og gífurlegu magni af bráðnu smjöri, sem mætti kannski minnka í hjartaverndarskyni.

Pönnusteiktur skötuselur var góður, borinn fram með hvítlauksristuðum sveppum, lauk, hrísgrjónum og tómati. Smálúða var skemmtilega krydduð harðsteiktum lauk, borin fram með sveppum og hvítlauksbrauði.

Léttsteiktur lambavöðvi var fremur góður, borinn fram með bragðdaufum og stórum lerkisveppum, sem kokkarnir höfðu sjálftir tínt á Héraði; léttilega gufusoðnu grænmeti; og eplasalati í stökkum stauk.

Lerkisveppirnir voru gott dæmi um framtak í eldhúsi. Sama var að segja um nýtínd bláber frá Barðaströnd, sem voru afar vel þegin á berjadaufu hausti. Ég átti von á innfluttum og bragðlausum, en þau reyndust vera ekta.

Gljáðir og heitir ávextir með þeyttri eggjahvítu og rjóma, svo og tvenns konar ís, nefndust Frangipane á seðli. Gulrótarterta með möndluspónum var mjög góð og lagskipt konfektterta gaf henni lítið eftir.

Jónas Kristjánsson

DV