Óðinsvé

Veitingar

Í Óðinsvéum eru Flúðasveppir kallaðir jarðsveppir. Þar er oft góður matur og stundum ekki, jafnvel í einni og sömu máltíðinni.

Fyrst var borið á borð salat, sem hét Caecar-salat, en átti fátt skylt með hinu fræga Kaliforníusalati. Í stað blaðsalats var jöklasalat og í stað pönnuristaðra brauðteninga var svínahöm. Þetta var á ólystugu kafi í parmiggiano-sósu, sem betur hefði verið borin fram sér.

Skömmu síðar var heiðri hússins bjargað með fyrsta flokks aðalrétti, afar meyrum og rauðum svartfuglsbringum með eplasalati, stinnum grænmetisþráðum og rifsberjum.

Óðinsvé eru fín og þar eru handþurrkur úr líni jafnt í hádegi sem að kvöldi. Þau eru vistleg, einkum á reyklausa svæðinu, en flestir vilja vera í garðstofunni, þar sem má reykja. Búnaður og innréttingar eru gamalgrónar, enda er hönnunin vel heppnuð. Vandaðir viðir vel renndir vitna til festu og öryggis. Lýsing er mild og dósatónlist lágvær. Ágæt málverk Hrings og Karólínu lyfta stílnum enn frekar.

Við sökkvum niður í þægilega armstóla við vel dúkuð borð og tökum eftir, að verðlag matseðilsins er hátt. Svipað verð er skráð við nöfn rétta á málaratrönum, sem bornar eru milli borða. Vínlistinn er nýr og óvenjulega spennandi, sameinar nýstárleg merki og tiltölulega hagstætt verð.

Góður var þunnt sneiddur, þurrkaður lambavöðvi, afar meyr og vel kryddaður, með “jarðsveppum” a la Flúðir. Bezti forrétturinn var heit og góð kjúklingalifur og meyr og fínn humar með sérstaklega góðum og grænum pastaræmum á sæmilegri pönnuköku. Afar fín pönnusteikt rauðspretta með miklu af rækjum og ristuðum möndlum, svo og djúpsteiktum grænmetisþráðum var einna bezti aðalrétturinn.

Frambærilegir voru kjúklingavængir og -læri, sterkkryddaðir chili og papriku. Ennfremur meyr Tandoori-kjúklingabringa með indverskum kryddum á grænmetisbeði og grænu pasta með sterkri pastasósu. Sama var að segja um eftirréttina, volgan mokkabúðing Crème brûlée með skorpu, og afar létta og skrautlega Tiramisu ostaköku feneyska.

Lakar tókst til með glóðaðar kjúklingabringur með ostgljáðu blómkáli, stöðluðu grænmeti og sterkri sósu, fremur hveitilegri. Svipuður var grásteiktur lambavöðvi, tæplega volgur, með miklu magni af bragðdaufri hveitisósu. Jöklasalatið endurtók sig undir nafni kjúklingasalats með þurrum kjúklingabitum, bökuðum feta-osti, olífum og tómötum.

Girnilegasti þáttur Óðinsvéa er 1190 króna hádegishlaðborð, sem sameinar átta tegundir af óvenjulega góðri síld, tæra og skemmtilega lauksúpu með góðum brauðkollum, grafinn og reyktan lax, kryddlegnar rækjur og tvo heita rétti, sem báðir voru bragðgóðir, þótt þeir lægju í hitapottum, plokkfisk og steinbít.

Jónas Kristjánsson

DV