Ódýr fjáröflun græn

Greinar

Grænfriðungar eru fangar eigin velgengni. Þeir líkjast íslenzkum stjórnmálamönnum að því leyti, að þeir vanda æ minna til meðala, eftir því sem þeir átta sig betur á, að fólk sér ekki gegnum tilraunir þeirra til að breiða út misskilning, sem þeir telja sér hagstæðan.

Grænfriðungar hafa ekki viljað læra af reynslu ofbeldis síns gagnvart ínúítum í Grænlandi og Kanada. Þeir hafa að vísu beðizt afsökunar á að hafa kippt stoðum undan hefðbundinni lífsafkomu fólks á þeim slóðum, en líta þó á glæp sinn sem minni háttar hliðarvanda.

Grænfriðungar eru að verða atvinnurekstur, sem þarf sífellt meiri peninga til að standa undir þenslunni. Þeir sérhæfa sig í að draga starfslið sjónvarpsstöðva og tilfinninganæma stórborgabúa á asnaeyrum með því að höfða til öflugs dálætis fólks á selum og hvölum.

Erfitt væri fyrir grænfriðunga að afla peninga til sívaxandi rekstrar með því að höfða til ástar stórborgarbúa á svínum og nautgripum. Það eru selir og hvalir, sem fá veskin til að opnast og seðlana til að streyma. Þess vegna eru selir og hvalir á oddi áróðursins.

Málstaðurinn er að sumu leyti ágætur í baráttunni gegn hvalveiðum Íslendinga. Augljóst er, að þær gegna engu atvinnusögulegu hlutverki í þjóðarbúskap eða þjóðarsál okkar í líkingu við selveiðar hjá ínúítum. Hvalveiðar okkar eru í senn ung og úrelt atvinnugrein.

Einnig má ljóst vera, að hvalveiðar Íslendinga eru ekki í samræmi við andann í ákvörðunum Alþjóða hvalveiðiráðsins, þótt teygja megi bókstafinn með lagakrókum, sem eru sérgrein okkar. Og svokallaðar “vísindaveiðar” eru ekki ákvörðun Alþingis, heldur Halldórs.

Hitt er svo annað og verra að halda því fram, að hvalir séu í útrýmingarhættu á íslenzku veiðisvæðunum og að koma því inn hjá bandarískum stórborgabúum, að Íslendingar drepi 10.000 háhyrninga á ári. Þá er orðinn langur vegurinn frá árlegri veiði 80 hvala.

Verst er svo, að grænfriðungar dreifa kvikmyndaefni, sem gefur beint og óbeint til kynna, að hvalir og selir séu drepnir í eins konar kvalalosta veiðimanna. Það er fjarri sanni, en er notað, af því að það æsir upp fólkið, sem las Moby Dick og Selinn Snorra í æsku.

Stuðningsfólk grænfriðunga opnar ekki buddur, þegar þarf peninga til áróðurs fyrir verndun ózonlags himinhvolfsins. Það mundi ef til vill opna þær lítillega, ef það sæi bíómyndir af slátrun svína og nautgripa í sláturhúsum. En selir og hvalir gegna hjartnæmara máli.

Barátta grænfriðunga gegn hvalveiðum Íslendinga er ekki eitt af hinum brýnni verkefnum mannkyns í verndun umhverfis okkar á jörðinni, enda meira eða minna rekin á þægilegum fölsunum. Hún er fyrst og fremst fjáröflunaraðferð og er áhrifamikil sem slík.

Skiljanlegt er, að samtök leiðist smám saman til að beita aðferðunum, sem gefa mest í aðra hönd. En eðli samtaka breytist eftir baráttuaðferðunum, sem notaðar eru. Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Og á endanum munu grænfriðungar tapa á vinnubrögðum sínum.

Hið sama má raunar segja um sjávarútvegsráðherra og aðra íslenzka stjórnmálamenn, sem afla sér vinsælda heima fyrir með því að fá þjóðina til að sjá óvini í hverju horni í útlöndum. Að fara í stríð er gamalkunnug leið til að dreifa athygli frá innlendum vanda.

Á alla vegu er hvalamálið skólabókardæmi um, að skynsemi fær litlu að ráða, ef stundarhagur málsaðila býður, að ódýrt sé spilað á tilfinningar fólks.

Jónas Kristjánsson

DV