Ódýr olía í nokkur ár

Greinar

Kostnaður okkar af olíukaupum verður sennilega einum milljarði króna minni á þessu ári en var í fyrra, þrír milljarðar í stað fjögurra. Á næsta ári ætti kostnaðurinn að geta farið niður í tvo milljarða og haldizt slíkur í um það bil fimm ár, en ekki miklu lengur.

Tveggja milljarða króna árlegur sparnaður á kostnaði þjóðfélagsins er engin smáupphæð. Gagnið felst í ótal atriðum, meiri hagvexti, minni verðbólgu, meiri greiðslugetu viðskiptalanda okkar og almennri þátttöku okkar í vaxandi velgengni vestrænna iðnaðarríkja.

Beggja vegna Atlantshafsins eru þjóðhagsstofnanir sem óðast að endurnýja hagspár sínar til að taka tillit til aukinnar bjartsýni. Verð hlutabréfa hefur farið ört hækkandi í flestum vestrænum kauphöllum. Verðbólga er víða horfin eða hefur breytzt í verðhjöðnun.

Jafnvel í þriðja heiminum er búizt við góðum árum. Hagvöxtur í Afríku er talinn verða 3% á þessu ári og 5% í Rómönsku-Ameríku. Einu ríkin, sem ekki njóta þessa hvalreka, eru þau, sem flytja út olíu. Þar í hópi er Nígería, sem tæpast mun hafa efni á skreiðarkaupum.

Olíuverð hefur hækkað lítillega aftur vegna verkfallsins á norsku Norðursjávarpöllunum. Að því verkfalli loknu mun lágt verð vafalítið festast í sessi, þó með einhverjum sveiflum. Ekki er fráleitt að vænta 15 dollara meðalverðs, það er helmings fyrra verðs.

Meðal áhrifa varanlegs lággengis á olíu er alvarlegt hrun á útflutningstekjum Sovétríkjanna. Stjórnvöld þar eystra munu á næstu árum hafa minni ráð en áður á að kosta aðgerðir til að grafa undan hagsmunum og öryggi Vesturlanda. Þau verða hrumara heimsveldi.

Fátt er svo með öllu gott, að ekki boði nokkuð illt. Lækkun olíuverðsins leiðir til, að erfiðum borholum verður lokað og minna fé lagt í rannsóknir og annan undirbúning olíuvinnslu. Því er hætt við, að framboð á olíu muni smám saman ná samræmi við eftirspurn.

Enn hættulegra er, að versna mun samkeppnisaðstaða annarra orkugjafa, svo sem kola, kjarnorku og vatnsafls. Til dæmis veldur verðhrun olíunnar því, að verðgildi íslenzks vatnsafls rýrnar. Þetta dregur úr möguleikum og vonum okkar á orkufrekum iðnaði.

Vesturlöndum í heild væri hættulegast, ef botninn dytti úr ráðagerðum um kjarnorkuver. Framsýnir menn ættu að minnast þess, að húseigendur nota góðviðrisdaga sumarsins til að gera við þakið fyrir veturinn. Og olíuvetur kemur, þótt síðar verði.

Þegar dregur nær aldamótum og olíuframleiðslan hefur lagað sig að eftirspurninni, er nauðsynlegt að risið hafi kjarnorkuver til að framleiða ódýra samkeppnisorku. Olía er takmörkuð auðlind, sem verður um síðir gulls ígildi, ef hún fær litla sem enga samkeppni.

Kjarnorkuvinnsla hefur gengið vel í sumum löndum, en verið erfiðleikum bundin í öðrum. Að fenginni reynslu ættu kjarnorkuver að reynast vistfræðilega heppilegri til orkuvinnslu en olíuborholur og kolanámur, ef rétt er að staðið, eins og Frakkar hafa gert.

Við verðum eins og aðrir Vesturlandabúar að nota sumartíma lágs olíuverðs á næstu árum til að búa okkur undir olíuvetur, sem getur orðið harður, ef við verðum orðin of háð olíunni. Við eigum líka að nota tækifærið til að byggja upp miklar öryggisbirgðir olíu.

Um leið og við gleðjumst yfir lukkupottinum, sem við höfum dottið í, er ráðlegt, að sofna ekki í honum og fljóta ekki í honum alla leið að feigðarósi.

Jónas Kristjánsson

DV