Ódýrari handboltalausn

Greinar

Komið hafa í ljós hugmyndir um ódýrari leiðir til að halda hér heimsmeistarakeppni í handbolta en áður hafði verið ákveðið að fara. Þessar leiðir ber að skoða í alvöru, því að leiðinlegt er fyrir Ísland að geta ekki staðið við samninga, sem á sínum tíma voru harðsóttir.

Þegar menn fóru að óttast, að framkvæmdir yrðu dýrari en 500 milljónir og færu hugsanlega langleiðina upp í milljarð, kom í ljós, að dæmið var byggt á sandi. Ríkið hafði bara lofað sem svarar 350 milljónum á núverandi verðlagi og Kópavogur réð ekki við afganginn.

Nýir valdhafar í Kópavogi telja dæmið farið úr böndum og hafa stuðning meirihluta bæjarbúa í skoðanakönnun um málið. Enda er auðvelt að sýna fram á, að hagsmunum Kópavogs sé betur borgið með annars konar íþróttahöllum eða annars konar framkvæmdum.

Bæjarfélög á borð við Kópavog þurfa yfirleitt lítil eins vallar hús með takmörkuðu áhorfendasvæði, fremur en stór hús með mörgum völlum og umfangsmiklu áhorfendasvæði. Þau þurfa hús, sem börn og unglingar geta sótt um skamman veg, fremur en langan.

Af þessum ástæðum er hætt við, að um sjálfsblekkingu sé að ræða, ef ráðamenn bæjarfélaga halda, að heimsmeistarahöll nýtist í fjárfestingu að fullu sem skóla- og íþróttahúsnæði. Alltaf verður einhver kostnaðarmunur, sem lendir á þeim, sem tekur að sér ábyrgð.

Athyglisvert er, að ráðamenn Hafnarfjarðar vilja ekki taka að sér hlutverk Kópavogs, heldur vilja, að frumkvæðið komi frá ríkinu og að Hafnarfjörður verði meðreiðarsveinn. En ríkið hefur haldið fast við samninginn, sem felur ekki sér ríkisfrumkvæði í málinu.

Hugsanlegt er að fara megi aðra leið og hengja málið á sýningarskála, sem einkum væri ætlaður fyrir vörusýningar. Slíkur skáli væri hagkvæmastur í Laugardal í Reykjavík, þar sem slík aðstaða er fyrir í smærri stíl og þaðan sem stutt er til hótela og veitingastaða.

Raunar þarf fyrr eða síðar að leggja út í kostnað við að gera Reykjavík að öflugri sýninga- og ráðstefnuborg en nú er. Hótel og veitingahús eru þar fjölmörg, fundarsalir dálítið takmarkaðir og sýningaraðstaða lítil.Ráðstefnu- og sýningagestir eru þeir ferðamenn, sem skila þjóðarbúinu mestum tekjum. Til að verða gjaldgengt á því sviði vantar Ísland enn, helzt í Laugardal, öfluga ráðstefnu- og sýningarmiðstöð, sem getur þjónað mjög misstórum hópum og einkum þó stórum hópum.

Erlend reynsla er fyrir, að ekki þýðir að hafa slíka miðstöð í hálfgerðum svefnbæjum á borð við Kópavog. Hún þarf að vera þar sem eru barirnir og böllin, hótelin og veitingahúsin. En ráðamenn Reykjavíkur hafa ekki enn sett slíka miðstöð efst á óskalista sinn.

Í varfærni sinni taka þeir tillit til, að núverandi aðstaða til ráðstefna og sýninga er fremur lítið notuð. Þeir reikna með, að langan tíma taki fyrir borgina að ná til baka kostnaði við enn meiri aðstöðu, enda mundi hagurinn af henni dreifast til margra óskyldra aðila.

Í erfiðri stöðu er freistandi að reyna að semja við Flugleiðir um skammtímaleigu á væntanlegu flugskýli á Keflavíkurvelli, innrétta það sætum og hreinlætisaðstöðu, sem síðan má flytja annað og nýta. Enda hafa Flugleiðir gagn af, að heimsmeistarakeppni verði hér.

Þetta er engin óskalausn. En skólahúsnæðislausn í svefnbæ hefur reynzt veikburða að mati Kópavogs og sýningarsalarlausn í höfuðborg virðist því miður ekki enn hafa náð fyllingu tímans að mati Reykjavíkur.

Jónas Kristjánsson

DV