Byggingarsaga fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni verður örugglega þyrnum stráð. Margir nágrannar flugvallarins og aðrir Reykvíkingar eru ósáttir við ráðagerðina. Þeir telja aðflug og flugtök eiga betur heima á svæðum, þar sem þéttbýli er minna og færri mannslíf í veði.
Ráðagerðir flugráðs og samgönguráðuneytisins um að grafa upp mýrina fyrir hálfan annan milljarð króna og leggja þar alveg nýjar flugbrautir verða áreiðanlega tilefni mikillar sundrungar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir, sem ósáttir eru við staðinn, munu láta í sér heyra.
Núverandi leifar af flugvelli Breta í mýrinni hafa að mestu fengið frið í skoðanaskiptum fólks, af því að allir vita, að sá flugvöllur er á síðasta snúningi. Ekki hefur tekið því að amast við því, að hann sé notaður til bráðabirgða meðan verið sé að finna og byggja nýjan stað.
Flestir hafa bent á Keflavíkurflugvöll sem eðlilegan arftaka Reykjavíkurflugvallar. Millilandaflugvöllurinn er afar vel tækjum búinn, mun betur en innanlandsflugvöllurinn. Auk þess er hann vannýttur og getur hæglega bætt á sig innanlandsflugi eins og hann er núna.
Keflavíkurflugvöllur er nú betur undir það búinn að taka við innanlandsflugi en nýr flugvöllur í Vatnsmýrinni verður, þegar búið er að verja hálfum öðrum milljarði til að grafa upp mýrina og leggja þar nýjar flugbrautir. Forskotið syðra er yfir tveir milljarðar.
Ekki má heldur gleyma, að erfitt verður að stunda innanlandsflug á verktíma fyrirhugaðs flugvallar í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir munu margfalda slysahættu á svæðinu. Henni verður helzt mætt með því að flytja innanlandsflug til bráðabirgða á Keflavíkurvöll.
Í stað þess að búa til bráðabirðgaaðstöðu fyrir tímabundið innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli er skynsamlegra að reisa þar varanlega stöð fyrir innanlandsflug við hlið millilandastöðvarinnar og tengja þær saman með yfirbyggðum gangi. Það er hagkvæm framtíðarlausn.
Ef Keflavíkurflugvöllur tekur við innanlandsflugi, mun aukast umferð á Reykjanesbraut. Það mun breyta forsendum í reiknilíkönunum, sem nú eru notuð til að reikna arðsemi í framkvæmdum við veginn. Tvöföldun brautarinnar verður hagkvæmari en nú er talið.
Tvöföld Reykjanesbraut, lýsing hennar allrar og rafhitun stuttra hálkukafla, sem hingað til hafa valdið slysum, hafa samanlagt ekki aðeins gildi fyrir flugið, heldur einnig fyrir allt atvinnulíf á suðvesturhorni landsins, tengja betur höfuðborgarsvæðið og suðurnesin.
Tvöföld Reykjanesbraut með öllu tilheyrandi og viðbótarstöð á Keflavíkurvelli verða alls mörgum hundruðum milljóna króna ódýrari en samanlagður kostnaður af nýjum flugbrautum á Reykjavíkurvelli, nýjum flugvallarmannvirkjum og nýrri flugstöð í Nauthólsvík.
Vel lýst, hálkulaus og tvöföld Reykjanesbraut gefur kost á reglum um 110-130 km hámarkshraða, sem styttir leiðina frá Reykjavík niður í hálftíma. Það þykir mjög gott í alþjóðlegum samanburði, þótt það sé að vísu lengra en tíu mínúturnar að flugstöðinni í Nauthólsvík.
Frá Breiðholti eða Garðabæ mun ekki taka lengri tíma að komast á Keflavíkurvöll en í Nauthólsvík. Að vísu má brúa Kópavog, en það mun hafa í för með sér illindi við íbúa á Kársnesi. Samgöngusamanburðurinn er ekki eins mikið Vatnsmýrinni í vil og oft er fullyrt.
Meira öryggi og minni kostnaður gera gott betur en að vega upp styttri leið. Því er rétt að afskrifa Vatnsmýrina og hefjast handa við flugstöð á Keflavíkurvelli.
Jónas Kristjánsson
DV