Óeirðir í Seattle og Prag

Greinar

Alþjóðavæðing og þjónusta við gráðug fjölþjóðafyrirtæki er ekki alvarlegasta vandamál stofnana á borð við Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Heimsviðskiptastofnunina, sem sæta núna óeirðum, hvar sem þær halda fundi sína, fyrst í Seattle og síðast í Prag.

Vandinn felst fyrst og fremst í þeim misskilningi, að þriðja heiminum beri að endurgreiða slíkum stofnunum einhverjar fjárhæðir, sem þær hafa lánað valdhöfum í þriðja heiminum, í fullri vissu þess, að þeir og skjólstæðingar þeirra stælu meira eða minna af lánunum.

Minnisstætt skólabókardæmi um ruglið í lánveitingum er fjárausturinn til Rússlands. Þeim peningum var nánast öllum stungið undan í skjóli Jeltsíns, sem þá var forseti landsins. Þeim var sumpart sóað og sumpart voru þeir fluttir á einkareikninga í vestrænum bönkum.

Þegar fénu var mokað í skjólstæðinga Jeltsíns, vissu ráðamenn þessara stofnana af fyrri reynslu um gervallan þriðja heiminn, að miklu af því yrði stolið, þótt sjálft umfang glæpsins í Rússlandi hafi komið þeim á óvart. Þeir geta ekki vikizt undan samábyrgð á glæpnum

Ef James Wolfensohn í Alþjóðabankanum og Horst Köhler í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lána glæpamönnum, sem víðast hvar ráða ríkjum í þriðja heiminum, vita bankastjórarnir, að mikið af fénu fer á einkareikninga, en ekki til þeirra þarfa, sem höfð eru að yfirvarpi.

Þeir geta ekki ætlazt til, að eymdarþjóðir þriðja heimsins, sem ekki hafa hagnazt neitt á þessum lánum, endurgreiði fjármálastofnunum neitt af því fé, sem þannig hefur verið ráðstafað. Þeir geta ekki heldur neitað vitneskju um ástand, sem þekkt hefur verið áratugum saman.

Þess vegna er óþarfi að fjölyrða mikið um, hvort Wolf-ensohn og Köhler séu orðnir svo meyrir út af óeirðum í Seattle og Prag, að þeir vilji sem óðast gefa eftir mikið af skuldum þriðja heimsins. Til þessara skulda var stofnað á siðlausan hátt og þær ber allar að afskrifa.

Auðvitað eiga Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki að lána, án þess að tryggt sé, að allir peningarnir skili sér í tilskilin verkefni. Sú trygging fæst ekki, nema stjórnarfar í viðkomandi landi fylgi vestrænum reglum um gegnsæi, réttaröryggi og valddreifingu.

Ofan á bjánaleg útlán hafa slíkar stofnanir gerzt sekar um afturhaldssamar kröfur til þriðja heimsins í efnahags- og fjármálum. Þessar kröfur eru framleiddar af “annars flokks hagfræðingum”, samkvæmt orðum Josephs Stiglitz, sem lengi var aðalhagfræðingur Alþjóðabankans.

Stiglitz hefur til gamans bent á, að efnahagsleg og peningaleg velgengni Bandaríkjanna á síðasta áratug stafaði af, að í hvívetna gerðu stjórnvöld nákvæmlega það, sem hagfræðingar Alþjóðabankans sögðu þeim að gera ekki, allt frá skattalækkunum yfir í aukin ríkisútgjöld.

Hitt er svo minna mál, hvort fjölþjóðafyrirtæki hafi makað krókinn óhæfilega mikið í skjóli þeirra stofnana, sem predikað hafa svokallaða alþjóðavæðingu í markaðsmálum. Það er ljóður á ráði þessara stofnana, en er ekki sjálfri hugmyndafræði alþjóðavæðingar að kenna.

Siðferðilegt hrun Heimsviðskiptastofnunar, Alþjóðabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðs stafar ekki af, að opinn heimsmarkaður sé röng stefna, heldur af siðferðilega rangri útlánastefnu og óviðurkvæmilegum stuðningi forstjóranna við stórglæpamenn í þriðja heiminum.

Ofangreindar alþjóðastofnanir eiga því fyllilega skilið þær óeirðir, sem þær hafa sætt, allt frá Seattle til Prag, og munu væntanlega um síðir læra af mistökum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV