Of dýr samtrygging.

Greinar

Austfirzkir sveitarstjórnarmenn skoruðu nýlega á iðnaðarráðherra að hraða undirbúningi að byggingu kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð. Þeir vilja gera stóriðjudraum sinn að veruleika, þótt komið hafi í ljós, að raunveruleikinn er kuldalegri en draumurinn.

Vafalaust gerir ráðherrann sitt bezta, enda er hann þingmaður Austfirðinga, alveg eins og gerði fyrrverandi ráðherra, sem líka var þingmaður þeirra. En kísilmálmverksmiðjan er pólitískt loforð, sem hefur reynzt afar erfitt að efna og mun líklega reynast ókleift.

Hinir góðviljuðu stjórnmálamenn standa andspænis tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi yrði að greiða niður stofnkostnað verksmiðjunnar um 600 milljónir króna, ef hún yrði reist við Reyðarfjörð. Í öðru lagi yrði að greiða niður orkuverð til hennar úr 18 mills í 14.

Síðara vandamálið er raunar almennt rothögg á stóriðjudrauma Íslendinga. Samninganefndarmenn um stóriðju hafa nýlega upplýst, að unnt sé að ná 14 mills á kílóvattstundina í samningum við erlend stóriðjufyrirtæki. Orkuverð hafi verið á niðurleið að undanförnu.

Jafnframt hefur rækilega verið upplýst, að orkuverð frá nýjum stórvirkjunum, svo sem orkuverinu við Blöndu, verði ekki undir 18 mills á kílóvattstundina. Stóriðjudæmið gengur því ekki lengur upp. Það kann að lagast síðar, en ekki á allra næstu árum.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að orka er ekki ódýr hér á landi eins og menn töldu fyrr á árum. Orkan er þvert á móti dýrari hér en í flestum nágrannalöndunum. Þar með er fallin forsendan fyrir þeirri skoðun, að Ísland sé framtíðarland orkufrekrar stóriðju.

Erlendu fyrirtækin, sem beðin hafa verið um samstarf, vilja ekki greiða 18 mills í stað 14. Og þau vilja ekki greiða 600 milljónir króna aukalega til að taka þátt í byggðastefnu íslenzkra stjórnvalda. Þessi fyrirtæki eru í viðskiptum, en ekki góðgerðarstarfsemi.

Hætt er við, að þetta ástand leiði til, að góðviljuðum stjórnmálamönnum þyki henta, að ríkið byggi kísilmálmverksmiðjuna. Þá er hægt að láta skattgreiðendur annast 600 milljón króna byggðastefnuna og láta orkunotendur annast fjögurra millsa verðmuninn.

Fyrirmyndina sjáum við á Grundartanga. Þar semur ríkið við sjálft sig um orkuverð. Það er haft fáránlega lágt, svo að járnblendiverksmiðjan beri sig. Reikningurinn er hins vegar sendur öðrum orkunotendum. Orkuverðið til Straumsvíkur er barnaleikur hjá þessu rugli.

Stóriðjustefnan á að vera hrein og klár. Ef við höfum samkeppnishæfa orku, eigum við að selja hana einhverjum, sem vilja kaupa á sanngjörnu verði. Íslenzka ríkið á ekki að sitja báðum megin við samningaborðið eins og það gerði í Grundartangadæminu.

Stóriðjudraumurinn á Reyðarfirði verður kominn í 50 milljón króna undirbúningskostnað í lok þessa árs. Ástæðulaust er að sjá svo mikið eftir þessu fé, að kastað sé 600 milljónum króna í stofnkostnaðarmismun og fjórum millsum í hverja kílóvattstund.

Við áttum að taka út þroska okkar í Kröflu. Þar var reist pólitískt orkuver í skjóli samtryggingar stjórnmálaflokkanna. Kísilmálmdraumurinn er að því leyti verri, að þar þarf þjóðin ekki bara að taka erlend lán til orkuvers, heldur einnig til stóriðjunnar. Það er of dýr samtrygging.

Jónas Kristjánsson

DV