Of háir og of lágir vextir

Greinar

Stjórnmálamenn okkar, og þá ekki síður ráðherrar en aðrir, tala af töluverðu ábyrgðarleysi um vexti. Mætti ætla af orðum þeirra, að vextir séu fyrirbæri, sem Seðlabankinn eða einhver önnur opinber stofnun geti hækkað og lækkað með eins konar handafli.

Þeir sjá, að vextir og jafnvel raunvextir geta verið óþægilega háir. Við sjáum til dæmis vel í húsnæðisumræðunni, að vandinn felst að töluverðu leyti í, að íbúðaeigendum er ekki talið kleift að borga sömu vexti í húsnæðislán og kerfið borgar lífeyrissjóðunum.

Vextirnir, sem lífeyrissjóðirnir fá, eru byggðir á erfiðum samningum húsnæðisstjórnar ríkisins og sjóðanna. Þeir eiga að endurspegla markaðsvexti í þjóðfélaginu. Væru þessir vextir allt of lágir, gætu lífeyrissjóðirnir ávaxtað fé síns fólks á annan og skynsamlegri hátt.

Ríkið tekur svo á sig að niðurgreiða þessa vexti um þriðjung eða meira til venjulegs fólks og um meira en tvo þriðju til forréttindahópa verkamannabústaða. Þetta er svo dýr niðurgreiðsla, að reiknað er með, að eftir nokkur ár gleypi hún allt húsnæðisfé ríkisins.

Hins vegar sýnist erfitt að minnka þessa niðurgreiðslu og ókleift að afnema hana með öllu. Enda má segja, að fráleit sé slík arðsemi í húsnæðiskaupum, að hún standi undir raunvöxtum markaðarins. Á sama hátt er slík arðsemi ekki sögð vera í lánum námsmanna.

Útilokað er, að peningar geti borið núverandi raunvexti um aldur og ævi. Uppsafnaður arður þeirra næmi fljótlega miklu meiri upphæð en sem svarar öllum peningum þjóðarinnar. Núverandi raunvextir hljóta því að vera tímabundin blaðra, sem springur einhvern tíma.

Þetta er flókinn vandi, því að stjórnvöld geta ekki með handafli náð raunvöxtum niður í tölur, sem húseigendur, námsmenn og aðrir geta borgað. Til þess að geta lánað þarf nefnilega peninga. Af þeim er alls ekki nóg, svo sem auglýsingar bankanna sýna greinilega.

Hægt væri að nálgast eðlilega og greiðanlega raunvexti, ef jafnvægi væri í lánamarkaðinum. Við mundum þekkja slíkt jafnvægi á, að bankarnir auglýstu útlán sín og útlánakjör jafngrimmt og þeir auglýstu innlánin og innlánakjörin. Engum banka dettur slíkt í hug núna.

Við stöndum því andspænis þverstæðunni, að raunvextir eru í senn of háir og of lágir. Þeir eru ekki nógu háir til að framkalla svo mikinn sparnað, að nægilegt lánsfé myndist fyrir meintar lánsþarfir. Um leið eru þeir svo allt of háir, að ríkið þarf að niðurgreiða þá.

Ríkið gæti reynt að lina þessa spennu með því að hætta að niðurgreiða vexti og draga þannig úr eftir spurn lána. En margvíslegar ástæður valda því, að slík markaðshyggja er af öllum þorra fólks talin óframkvæmanleg frá félagslegu og menningarlegu sjónarmiði.

Í staðinn reyna ríki og Seðlabanki að hafa raunvexti hverju sinni eins háa og framast er unnt til að draga úr eftirspurn. Þetta hefur minnkað spennu, en aldrei nálgast raunverulegt jafnvægi. Miklu fleira þarf að gera til að draga úr eftirspurn, svo að vextir megi lækka.

Á þenslutíma þarf ríkið að draga úr eigin framkvæmdum og rekstri til að minnka samkeppnina um hið takmarkaða fjármagn. Sömuleiðis þarf ríkið að skrá gengi peninganna rétt, svo að innflutningsspenna magni ekki peningaþörf. Hvorugt er gert af nokkurri alvöru.

Meðan ríkið keyrir á fullu og gengi krónunnar er skakkt, verða raunvextir allt of háir og lágir í senn og verða ekki læknaðir með stjórnvaldi eða öðru handafli.

Jónas Kristjánsson

DV